Sport

Leonard setur stórt spurningamerki við heimsmet Ye Shiwen

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/getty
John Leonard, framkvæmdastjóri Samtaka sundþjálfara í heiminum (World Swimming Coaches Assocation), segir frammistöðu hinnar 16 ára Ye Shiwen í 400 metra fjórsundi ótrúverðuga.

Ye Shiwen, sem er aðeins 16 ára, kom fyrst í mark í úrslitasundinu í gær og setti um leið nýtt heimsmet. Það var hins vegar frammistaða hennar í skriðsundinu sem vakti athygli Leonard og fleiri að hans sögn.

„Kona syndir ekki hraðar en hraðasti karlmaður heims síðasta fjórðunginn af 400 metra fjórsundi eftir eðlilegt sund fram að því. Það gerist ekki," segir Leonard.

Ye Shiwen synti síðustu 50 metrana hraðar en Ryan Lochte sem vann til gullverðlauna í sama sundi í karlaflokki á næsthraðasta tíma sögunnar.

„Síðustu 100 metrarnir minntu okkur sem höfum verið í kringum íþróttina í lengri tíma um margt á sundfólk frá Austur-Þýskalandi á árum áður. Það minnti einnig á frammistöðu ungrar írskrar sundkonu í 400 metra fjórsundi á Ólympíuleikunum í Atlanta," sagði Leonard og vísaði þar til frammistöðu Bandaríkjakonunnar Michelle Smith árið 1996.

Smith, nú Michelle de Bruin, vann til gullverðlauna í Atlanta 1996 en var tveimur árum síðar dæmd í fjögurra ára keppnisbann vegna steranotkunar.

„Hún (Ye Shiwen) lítur út eins og ofurkona. Í öll þau skipti sem einhver hefur litið út eins og ofurkona hefur síðar komið í ljós að um lyfjanotkun hefur verið að ræða," hefur Guardian eftir Leonard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×