Íslenski boltinn

Jensen ekki með ÍA í kvöld-Kjartan Henry með KR

Hjörtur Hjartarson skrifar
Kjartan Henry er klár í slaginn í kvöld
Kjartan Henry er klár í slaginn í kvöld Mynd: Guðmudur Bjarki
Danski leikmaðurinn, Jesper Jensen sem skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við ÍA um helgina, verður ekki með liðinu í leik liðsins gegn KR í Pepsideildinni í kvöld. Þetta kom fram í viðtali við Þórð Þórðarson, þjálfara ÍA í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu í morgun.

"Jesper verður ekki með okkur í kvöld. Hann er ekki alveg heill heilsu eftir að hafa slitið krossband í fyrra en eins fram hefur komið skrifaði hann undir langan samning við okkur. Við erum horfum meira til framtíðar með hann heldur en sem einhverja skyndilausn", sagði Þórður.

Að sögn Þórðar fór Jesper til Danmerkur í gær og kemur til landsins á morgun eða miðvikudag.

Skagamenn fengu einnig Theo Furness í félagsskiptaglugganum en Gary Martin og Mark Doninger fóru báðir frá félaginu. Þórður segir ÍA ekki hafa hug á að fá fleiri leikmenn til sín að þessu sinni.

KR-ingar fengu á dögunum til sín miðjumanninn sterka, Jónas Guðna Sævarsson. Pétur Pétursson, aðstoðarþjálfari KR sagði í morgun líklegt að hann kæmi við sögu í kvöld.

"Alveg örugglega, hvort sem hann byrjar eða ekki, þá mun hann væntanlega spila einhverja rullu í þessum leik. Þá hefur Kjartan Henry æft af krafti með okkur undanfarið og má reikna með honum líka í kvöld", sagði Pétur.

Leikur KR og ÍA hefst klukkan 20 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×