Handbolti

Íslendingar oftast í skammakróknum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Róbert Gunnarsson vinnur boltann af Karabatic á lykilaugnabliki í leiknum í gærkvöldi.
Róbert Gunnarsson vinnur boltann af Karabatic á lykilaugnabliki í leiknum í gærkvöldi. Mynd/Valli
Strákarnir okkar í íslenska karlalandsliðinu í handknattleik hafa fengið flestar refsingar allra þátttökuþjóðanna í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.

Fjórum umferðum af fimm í riðlakeppninni er nú lokið. Íslensku strákarnir hafa alls fengið tveggja mínútna brottvísun 26 sinnum. Það svarar til 6,5 brottvísanna í leik.

Varnartröllin í íslenska liðinu, Ingimundur Ingimundarson og Sverrir Jakobsson, hafa hvor um sig verið reknir af velli fimm sinnum. Alexander Petersson kemur næstur með fjórar brottvísanir.

Brotakóngur mótsins hingað til er Svíinn Tobias Karlsson sem hefur fokið útaf sjö sinnum líkt og Bretinn Christopher McDermott. Þrjú gul spjöld Karlsson tryggja honum þann vafasama heiður að sitja í efsta sæti brotalistans.

Næstir á hæla Íslands koma Bretar með 20 brottvísanir, fimm að meðaltali í leik, en þjóðirnar mætast í lokaumferðinni á morgun.

Argentínumenn eru prúðasta lið mótsins en liðið hefur aðeins fengið átta brottvísanir í fjórum leikjum. Tvær að meðaltali í leik. Frakkar, sem lágu gegn íslenska liðinu eins og frægt er orðið í gær, koma næstir með þrettán brottvísanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×