Handbolti

Thomas Mogensen tekur sér frí frá danska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Mogensen fagnar hér Evrópumeistaratitlinum með danska landsliðinu í ársbyrjun.
Thomas Mogensen fagnar hér Evrópumeistaratitlinum með danska landsliðinu í ársbyrjun. Mynd/Nordic Photos/Getty
Thomas Mogensen, leikstjórnandi danska landsliðsins í handbolta, verður ekki með liðinu á HM á Spáni í byrjun næsta ár. Mogensen ætlar að taka sér pásu frá landsliðinu á næstu misserum til þess að einbeita sér að félagsliði sínu Flensburg.

Mogensen gaf þetta út á heimasíðu sinni en nýjasti liðsfélagi hans hjá Flensburg er íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Atlason.

„Ég hef mikinn áhuga á því að spila handbolta í mörg ár til viðbótar og það á einnig við um landsliðið. Til þess að missa ekki ástríðuna og leikgleðina auk þess að halda mér ferskum líkamlega og andlega þá tel ég að það sé best í stöðunni fyrir mig að taka mér frí," skrifaði Thomas Mogensen á heimasíðu sinni.

„Það er mikið í gangi á þessu tímabili með Flensburg/Handewitt ekki síst þar sem við erum með í Meistaradeildinni. Sumarið fór í undirbúning fyrir Ólympíuleikana og þetta er nauðsynlegt frí fyrir mig," bætti Mogensen við.

„Ég hef mikinn áhuga á því að vera með á Evrópumótinu 2014 á heimavelli og vonandi get ég verið í toppformi þá. Það er samt ekkert öruggt í þessu," sagði hinn 29 ára Thomas Mogensen. Hann hjálpaði Dönum að verða Evrópumeistarar í Serbíu í ársbyrjun og hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×