Körfubolti

Heldur sigurganga Snæfells og Keflavíkur áfram?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Heil umferð fer fram í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld og meðal leikja eru Reykjanesbæjarslagur í Ljónagryfjunni og slagur KFUM-félöganna í Vodafonehöllinni. Keflavík og Snæfell hafa unnið alla sína leiki til þessa en Fjölnir og Grindavík eru enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri.

KFUM-félögin Valur og Haukar mætast í Vodafonehöllinni. Valur er búið að vinna tvo leiki í röð en Haukakonur hafa bara náð í einn sigur út úr fyrstu þremur leikjum sínum og kom sá sigur í Njarðvík. Haukakonan Siarre Evans er með 25,0 stig og 19,7 fráköst í leik í fyrstu þremur leikjum liðsins en það hefur ekki verið nóg.

Íslands og bikarmeistarar Njarðvíkur fá topplið Keflavíkur í heimsókn í Ljónagryfjuna. Lele Hardy, spilandi þjálfari Njarðvíkur, er puttabrotin en heldur samt áfram að skila magnaðri tölfræði. Keflavíkurliðið hefur aftur á móti unnið alla þrjá leiki sína með sannfærandi hætti þar sem hin unga Sara Rún Hinriksdóttir hefur farið á kostum.

Snæfell tekur á móti botnliði Grindavíkur í Stykkishólmi en Snæfells vann alla leiki sína og báða titla í boði á undirbúningstímabilinu og hefur síðan unnið þrjá fyrstu leiki sína í deildinni. Nýliðar Grindavíkur eiga enn eftir að vinna leik.

Fjórði og síðasti leikur kvöldsins er á milli Fjölnis og KR í Grafarvoginum en lítið hefur gengið hjá báðum liðum í upphafi móts. Fjölnir er enn án stiga en KR-liðið hefur tapað stórt í tveimur síðustu leikjum eftir sigur á Grindavík í fyrsta leik.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×