Körfubolti

Marvin illviðráðanlegur í byrjun móts

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marvin Valdimarsson.
Marvin Valdimarsson. Mynd/Vilhelm
Marvin Valdimarsson hefur heldur betur farið vel af stað með Stjörnunni í Dominos-deild karla í körfubolta en hann skoraði 31 stig í sigri á Keflavík í Garðabænum í 2. umferðinni.

Marvin hefur nú skorað 57 stig í fyrstu tveimur leikjum Stjörnunnar eða 28,5 stig að meðaltali. Stjarnan hefur unnið báða þessa leiki, með 11 stigum á móti Tindastóls á Króknum, 90-79, og með 18 stigum á móti Keflavík á heimavelli, 101-83.

Marvin er eins og er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar því Páll Axel Vilbergsson í Skallagrím hefur skorað 30,0 stig í leik og Samuel Zeglinski hjá Grindavík er með 29,5 stig að meðaltali. Marvin er eini þeirra sem hefur brotið 25 stiga múrinn í báðum leikjunum og sá sem er með hæsta framlagið í deildinni.

Marvin skorað 39 stig í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum í fyrra en hann endaði þá tímabilið með 13,9 stig að meðaltali í leik.

Marvin hefur nýtt 68 prósent skota sinna í þessum tveimur leikjum, skoraði 26 stig og hitti úr 9 af 13 skotum á móti Tindastól (69 prósent) og var með 31 stig og 67 prósent skotnýtingu (12 af 18) á móti Keflavík.

Marvin hefur verið duglegur að skora inn í teig og samkvæmt tölfræði á heimasíðu KKÍ hefur hann skorað 18 af 21 körfu sinni inn í teig. Þar kemur líka fram að hann er sérstaklega öflugur í þriðja leikhlutu þar sem hann hefur skorað 22 af 57 stigum sínum í þessum fyrstu tveimur umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×