Sport

Lindsey Vonn vill fá að keppa með körlunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Vonn.
Lindsey Vonn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lindsey Vonn, Ólympíumeistari og margfaldur heimsbikarmeistari á skíðum, er að leita sér að nýrri áskorun og vil nú fá tækifæri til að keppa við karlana á næsta tímabili. Vonn vann fjóra heimsbikarmeistaratitla á síðasta tímabili og hefur unnuð 53 Heimsbikarmót á ferlinum. Hún vann Heimsbikarinn i samanlögðu þriðja árið í röð á síðasta vetri.

Lindsey Vonn hefur beðið um leyfi að fá að keppa við karlana á brunmóti í Lake Louise í Kanada 21. nóvember næstkomandi. Hún hefur keppt þar 25 sinnum á kvennamótum síðan 2001, unnið ellefu þeirra móta, náð fimm sinnum öðru sætinu og einu verið í þriðja sætið.

Forráðamenn Heimsbikarskeppni kvenna eru ekki alltof spenntir fyrir þessu uppátæki og einhverjir halda því fram að hún nái forskoti á aðra kvenkeppendur með að keppa í Lake Louise en konurnar keppa á sama stað viku síðar.

Vonn telur hinsvegar að þetta muni auka áhuga fólks á kvennakeppninni. Hún ætlar meira að segja að fórna einu kvennamóti í Aspen fyrir mótið í Lake Louise en hún fær að sjálfsögðu engin stig þar í baráttunni um Heimsbikar kvenna.

Vonn hefur sent inn formlega beiðni um að fá að vera með en hún hefur talað fyrir því að í framtíðinni munu bestu konurnar keppa við karlana á þessum mótum. Það verður fróðlegt að sjá hvort Vonn fái að keppa við karlana í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×