Körfubolti

Grindvíkingar stöðvuðu sigurgöngu Stjörnunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorleifur Ólafsson.
Þorleifur Ólafsson. Mynd/Valli
Íslandsmeistarar Grindavíkur stöðu þriggja leikja sigurgöngu Stjörnunnar i Dominosdeild karla í kvöld með því að vinna Garðbæinga 90-86 í spennuleik í Röstinni í Grindavík. Grindavík og Stjarnan eru því jöfn að stigum í toppbaráttunni þegar sjö umferðir eru búnar en bæði liðin hafa náð í 10 stig af 14 mögulegum.

Aaron Broussard skoraði 24 stig fyrir Grindavík í kvöld og Þorleifur Ólafsson var frábær með 19 stig og 4 stoðsendingar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson bætti síðan við 16 stigum.

Brian Mills var með 27 stig og 11 fráköst hjá Stjörnunni og Justin Shouse bætti við 15 stigum og 14 stoðsendingum.

Grindvíkingar voru skrefinu á undan í upphafi leiks en Stjörnumenn hleyptu þeim ekki langt frá sér og voru síðan einu stigi yfir, 26-25, eftir mjög jafnan fyrsta leikhluta.

Það tók Stjörnuna rúmar fjórar mínútur að skora fyrstu stigin sín í öðrum leikhluta en Grindavík náði á sama tíma aðeins að skora fjögur stig og var því bara 29-26 yfir þrátt fyrir stigaleysi gestanna.

Grindavíkurliðið var engu að síður komið með frumkvæðið í leiknum og leiddi í framhaldinu með sjö stigum í hálfleik, 48-41, eftir að hafa unnið annan leikhlutann 23-15.

Grindvík var tíu stigum yfir í upphafi þriðja leikhlutans 53-43, en Stjarnan vann síðustu átta mínútur hans 20-9 og var 63-62 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Grindvíkingar skoruðu fimm fyrstu stig fjórða leikhlutans og voru með frumkvæðið það sem eftir var leiksins. Stjörnumenn voru þó aldrei langt undan og minnkuðu muninn í tvö stig þegar 11 sekúndur voru eftir. Samuel Zeglinski innsiglaði sigurinn með því að setja niður tvö víti.



Grindavík-Stjarnan 90-86 (25-26, 23-15, 14-22, 28-23)

Grindavík: Aaron Broussard 24/7 fráköst, Þorleifur Ólafsson 19/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 16/6 fráköst, Samuel Zeglinski 14/5 fráköst/8 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 11, Ómar Örn Sævarsson 5/12 fráköst, Davíð Ingi Bustion 1.

Stjarnan: Brian Mills 27/11 fráköst, Dagur Kár Jónsson 15/6 fráköst, Justin Shouse 15/6 fráköst/14 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 14/7 fráköst, Fannar Freyr Helgason 8/9 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 4/4 fráköst, Jovan Zdravevski 3/4 fráköst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×