Handbolti

Karabatic með níu mörk í sálfræðitrylli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karabatic í baráttunni í Montpellier í gærkvöldi.
Karabatic í baráttunni í Montpellier í gærkvöldi. Nordicphotos/AFP
Nikola Karabatic skoraði níu mörk þegar Montpellier vann fimm marka sigur á Cesson í efstu deild franska handboltans í gærkvöldi.

Þetta var í fyrsta sinn sem liðin mættust frá því Cesson vann óvæntan sigur á Frakklandsmeisturunum á síðustu leiktíð. Í kjölfarið hafa sjö leikmenn Montpellier sætt rannsókn vegna gruns um veðmálasvindl.

Heimamenn lentu í basli með spræka liðsmenn gestanna. Eftir átján mínútna leik leiddu liðsmenn Cesson með sex mörkum, 14-8. Karabatic fór þá fyrir sínu liði sem tókst að jafna metin í 27-27 þegar níu mínútur lifðu leiks. Þá skoruðu heimamenn sex mörk í röð og tryggðu sér sætan sigur.

Karabatic var sjóðandi heitur og fór fyrir liði Montpellier líkt og oft áður. Mörkin hans níu komu úr þrettán skotum.

Montpellier skaust upp fyrir Chambéry í annað sæti deildarinnar. Chambéry gerði jafntefli 35-35 gegn Sélestat í gærkvöldi. Paris-Handball, lið Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar og Róberts Gunnarssonar, hefur fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×