„Ég held að það megi alveg örugglega segja að það sé hjartað í byggðinni á Drangsnesi því að hérna starfar stór hluti og þetta er eign samfélagsins algerlega," sagði Óskar Torfason, framkvæmdastjóri Drangs. Fyrirtækið var stofnað árið 2000 af sveitarfélaginu, kaupfélaginu á Hólmavík, Byggðastofnun og einstaklingum og útgerðum á Drangsnesi. Þetta var þannig sameiginlegt átak til að tryggja atvinnu á Drangsnesi þegar Útgerðarfélag Akureyringa keypti fyrirtækið Hólmadrang, sem áður var með vinnsluna.
Spurður hvort úr þessu megi lesa að mikil samheldni sá á Drangsnesi svarar Óskar að það sé engin spurning. Að halda starfseminni gangandi sé algerlega sameiginlegt verkefni þeirra sem þarna búa.
„Menn hlaupa hver fyrir annan ef á þarf að halda. Menn hjálpast mjög mikið að," segir Óskar.

„Þetta er máttarstólpinn í byggðarlaginu, þessi bátur," segir Haraldur.
Báturinn skapar einnig atvinnu fyrir beitingafólk í landi en þrjár konur annast línubeitinguna fyrir Skúla og við þær var einnig rætt í þættinum.
Áður fyrr var rækja þýðingarmikill þáttur í útgerð og vinnslu á Drangsnesi. Útgerðarmaðurinn og skipstjórinn Friðgeir Höskuldsson hafði keypt Grímsey ST-2, stærsta skip Drangsnesinga, til rækjuveiða og þekkir það á eigin skinni að það er ekki eintóm sæla að gera út.
„Rækjan hvarf og við kvótalausir. Höfðum einbeitt okkur að rækju alla tíð meðan viðmiðunarárin voru, - kvótaárin," sagði Friðgeir.