Erlent

Herinn vildi fá öflugri vopn

Amadou Sanogo Leiðtogi valdaránsins ávarpar íbúa landsins í sjónvarpi.nordicphotos/AFP
Amadou Sanogo Leiðtogi valdaránsins ávarpar íbúa landsins í sjónvarpi.nordicphotos/AFP
Amadou Toumani Toure, forseti Malí, komst heilu og höldnu undan þegar herinn í landinu gerði þar valdarán í fyrrinótt. Herinn tók á sitt vald helstu valdastofnanir landsins.

Stuttu síðar sáust hermenn bera sjónvarpstæki og önnur verðmæti út úr forsetahöllinni. Amadou Sanogo, leiðtogi valdaránsins, lýsti síðan yfir útgöngubanni í höfuðborginni Bamako.

Malí er eitt af fáum Afríkuríkjum sem hafa nokkuð langa lýðræðishefð. Forsetakosningar áttu að verða í næsta mánuði en vaxandi óþolinmæði hefur gætt innan hersins gagnvart forsetanum, sem hefur ríkt í tæplega tvö fimm ára kjörtímabil.

Einkum hefur hernum ekki þótt forsetinn og stjórn hans hafa útvegað hernum nógu öflugan vígbúnað gegn uppreisnarmönnum.

Túaregar eru forn hirðingaþjóð sem býr víða í löndum í norðanverðri Afríku. Síðan Malí fékk sjálfstæði árið 1960 hafa þeir af og til gert uppreisn, nú síðast í byrjun þessa árs.

Þessi nýjasta uppreisn hefur verið mun öflugri en oftast áður. Ástæðan er sú að túaregar frá Malí, sem höfðu verið í þjónustu Múammars Gaddafí í Líbíu, sneru heim vopnum hlaðnir eftir fall Gaddafís á síðasta ári og hafa verið drifkraftur uppreisnarinnar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×