Hin rökrétta niðurstaða Ólafur Þ. Stephensen skrifar 18. apríl 2012 06:00 Mörgum er þungbært að fylgjast með réttarhöldunum yfir fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik, sem nú fara fram í Ósló. Fólki finnst erfitt að rifja upp hina skelfilegu atburði í Ósló og Útey í júlí í fyrra. Fyrir aðstandendur fórnarlambanna og eftirlifendur hlýtur það að vera mikið andlegt álag. Framgangsmáti og viðhorf morðingjans, sem sýnir ekki minnsta vott af iðrun og sér eftir því einu að hafa ekki drepið fleiri, gerir líka marga reiða. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna það sem þeir segja milda meðferð yfirvalda á Breivik; að hann skuli ekki hafður í járnum í réttarsalnum og að hann fái að tjá sig svo opinskátt, sem sumir telja að sé vanvirðing við fórnarlömbin. Í Noregi hefur sú ákvörðun dómarans að leyfa Breivik að flytja nokkurs konar pólitíska yfirlýsingu í nærri 70 mínútur við upphaf réttarhaldsins í gær verið umdeild. Að minnsta kosti tvennt rennir þó stoðum undir þá skoðun að norsk stjórnvöld hafi haldið rétt á málinu. Það er annars vegar rétt ákvörðun að gefa engan afslátt af kröfum réttarríkisins eða réttindum sakbornings í máli, þar sem einstaklingur taldi sig geta tekið lög og rétt í eigin hendur. Sömuleiðis er það í anda þeirra gilda gegnsæis, opins samfélags og tjáningarfrelsis sem Breivik er sjálfum svo meinilla við, að leyfa honum að rekja þær skoðanir sem hann vill meina að liggi að baki ódæðisverkum hans. Lestur Breiviks í gær var vissulega hrollvekjandi á köflum. Í honum voru samt mörg kunnugleg stef, sem eru ekki bara sjúklegir órar brjálæðings – geðlækna greinir á um hvort Breivik sé andlega heill eða ekki – heldur skoðanir, sem eiga sér talsverðan hóp fylgismanna. Þjóðernisofstæki og útlendingahatur er útbreitt í Evrópu og stjórnmálaflokkar byggðir á slíkum skoðunum fá stundum talsvert fylgi í kosningum. Stefnuskrá Breiviks er vissulega einhver allra öfgafyllsta útgáfan af þessum skoðunum. Þjóðernisöfgahreyfingar hafa svarið hann af sér og fordæmt gjörðir hans. Í gegnum andstyggilegan málflutning morðingjans má þó greina ákveðinn rökréttan þráð, sem mörg skoðanasystkin hans spinna oftast nær ekki til enda. Fyrir þann sem vill ein trúarbrögð, menningarlega einsleitt og þjóðernislega hreint ríki, hlýtur ofbeldið að vera hin rökrétta niðurstaða. Aðrar aðferðir duga ekki til að ná þessum markmiðum í vestrænu nútímasamfélagi og hnattvæddum heimi. Meðal annars af þessum sökum er gott að Breivik fái að tala. Líklega hefði verið bezt að almenningur hefði fengið að hlusta á hann milliliðalaust í beinni útsendingu í stað þess að þurfa að reiða sig á frásagnir fjölmiðla. Niðurstaða þeirra sem kynna sér málflutninginn hlýtur að vera að umburðarlyndi, samstarf og sambýli ólíkra þjóðernis-, menningar- og trúarhópa sé rétta leiðin. Þótt Breivik hafi fengið athygli sem margir telja óverðskuldaða er nokkurn veginn víst að afleiðingin af ódæðisverkum hans verði sú að þau gildi evrópskra lýðræðisríkja, sem honum var svo uppsigað við, styrkist í sessi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Kennarar hafa yfirvinnu af öðrum kennurum Helga Dögg Sverrisdóttir Skoðun 460 milljóna króna ofrukkun á viku Ólafur Stephensen Skoðun Leigubílar eiga að vera almenningssamgöngur en ekki neyðarúrræði Eyþór Máni Steinarsson Skoðun Ég er foreldri, ég er kennari Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Þagnarbindindi: Er það lausn ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóð sem hafnar hvalveiðum? Anahita Sahar Babaei Skoðun Hvers virði er innbúið? Hrefna Kristín Jónsdóttir Skoðun Opið bréf til Alþingis, við þingsetningu 4. febrúar Jóhanna Malen Skúladóttir,Laura Sólveig Lefort Scheefer,Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun Byrlunar- og símamálið: þáttur blaðamanna féll á fyrningu Eva Hauksdóttir Skoðun Er gott að sjávarútvegur skjálfi á beinunum? Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Hver er ábyrgð barna? Anna Laufey Stefánsdóttir Skoðun
Mörgum er þungbært að fylgjast með réttarhöldunum yfir fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik, sem nú fara fram í Ósló. Fólki finnst erfitt að rifja upp hina skelfilegu atburði í Ósló og Útey í júlí í fyrra. Fyrir aðstandendur fórnarlambanna og eftirlifendur hlýtur það að vera mikið andlegt álag. Framgangsmáti og viðhorf morðingjans, sem sýnir ekki minnsta vott af iðrun og sér eftir því einu að hafa ekki drepið fleiri, gerir líka marga reiða. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna það sem þeir segja milda meðferð yfirvalda á Breivik; að hann skuli ekki hafður í járnum í réttarsalnum og að hann fái að tjá sig svo opinskátt, sem sumir telja að sé vanvirðing við fórnarlömbin. Í Noregi hefur sú ákvörðun dómarans að leyfa Breivik að flytja nokkurs konar pólitíska yfirlýsingu í nærri 70 mínútur við upphaf réttarhaldsins í gær verið umdeild. Að minnsta kosti tvennt rennir þó stoðum undir þá skoðun að norsk stjórnvöld hafi haldið rétt á málinu. Það er annars vegar rétt ákvörðun að gefa engan afslátt af kröfum réttarríkisins eða réttindum sakbornings í máli, þar sem einstaklingur taldi sig geta tekið lög og rétt í eigin hendur. Sömuleiðis er það í anda þeirra gilda gegnsæis, opins samfélags og tjáningarfrelsis sem Breivik er sjálfum svo meinilla við, að leyfa honum að rekja þær skoðanir sem hann vill meina að liggi að baki ódæðisverkum hans. Lestur Breiviks í gær var vissulega hrollvekjandi á köflum. Í honum voru samt mörg kunnugleg stef, sem eru ekki bara sjúklegir órar brjálæðings – geðlækna greinir á um hvort Breivik sé andlega heill eða ekki – heldur skoðanir, sem eiga sér talsverðan hóp fylgismanna. Þjóðernisofstæki og útlendingahatur er útbreitt í Evrópu og stjórnmálaflokkar byggðir á slíkum skoðunum fá stundum talsvert fylgi í kosningum. Stefnuskrá Breiviks er vissulega einhver allra öfgafyllsta útgáfan af þessum skoðunum. Þjóðernisöfgahreyfingar hafa svarið hann af sér og fordæmt gjörðir hans. Í gegnum andstyggilegan málflutning morðingjans má þó greina ákveðinn rökréttan þráð, sem mörg skoðanasystkin hans spinna oftast nær ekki til enda. Fyrir þann sem vill ein trúarbrögð, menningarlega einsleitt og þjóðernislega hreint ríki, hlýtur ofbeldið að vera hin rökrétta niðurstaða. Aðrar aðferðir duga ekki til að ná þessum markmiðum í vestrænu nútímasamfélagi og hnattvæddum heimi. Meðal annars af þessum sökum er gott að Breivik fái að tala. Líklega hefði verið bezt að almenningur hefði fengið að hlusta á hann milliliðalaust í beinni útsendingu í stað þess að þurfa að reiða sig á frásagnir fjölmiðla. Niðurstaða þeirra sem kynna sér málflutninginn hlýtur að vera að umburðarlyndi, samstarf og sambýli ólíkra þjóðernis-, menningar- og trúarhópa sé rétta leiðin. Þótt Breivik hafi fengið athygli sem margir telja óverðskuldaða er nokkurn veginn víst að afleiðingin af ódæðisverkum hans verði sú að þau gildi evrópskra lýðræðisríkja, sem honum var svo uppsigað við, styrkist í sessi.
Þagnarbindindi: Er það lausn ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóð sem hafnar hvalveiðum? Anahita Sahar Babaei Skoðun
Opið bréf til Alþingis, við þingsetningu 4. febrúar Jóhanna Malen Skúladóttir,Laura Sólveig Lefort Scheefer,Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun
Þagnarbindindi: Er það lausn ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóð sem hafnar hvalveiðum? Anahita Sahar Babaei Skoðun
Opið bréf til Alþingis, við þingsetningu 4. febrúar Jóhanna Malen Skúladóttir,Laura Sólveig Lefort Scheefer,Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun