„Þetta verður alvöru. Það verður allt gefið í þetta," segir Ágúst Guðmundsson, rekstrarstjóri Skuggabarsins.
Þessi gamalgróni skemmtistaður opnar á Hótel Borg á föstudagskvöld eftir að hafa legið í dvala í um það bil áratug. „Meiningin er að endurvekja Skuggabarinn eins og hann var í sinni mynd, en kannski aðeins betrumbættan," segir Ágúst. Eigandi staðarins er Garðar Kjartansson sem er fyrrum eigandi Nasa og Apóteksins.
„Fólki í kringum mig og víða annars staðar finnst vera kominn tími á nýtt blóð á skemmtistöðunum. Ég held að við séum að svara því kalli," segir Ágúst.
Skuggabarinn mun einbeita sér að gestum 28 ára og eldri, eða aldurshópnum sem stundaði staðinn hér á árum áður. „Þetta er fólkið sem við viljum fá inn núna. Þetta er að hluta til liðið sem var þarna á sínum tíma. Við viljum samt gera eitthvað nýtt fyrir staðinn þannig að fólki líði ekki eins og það sé að fara aftur í tímann."
Opnunarteiti Skuggabarsins verður haldið milli 21 og 23 á föstudagskvöld fyrir boðsgesti og eftir það opnar húsið fyrir alla. Staðurinn verður opinn á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum og verður svokallað happy hour milli klukkan 20 og 22. -fb

