Viðskipti innlent

Kauphöllina grunar markaðsmisnotkun

Kauphöllin Alls vísaði Kauphöll Íslands tuttugu málum til Fjármálaeftirlitsins í fyrra. Þau eru þegar orðin sjö það sem af er þessu ári.
fréttablaðið/GVA
Kauphöllin Alls vísaði Kauphöll Íslands tuttugu málum til Fjármálaeftirlitsins í fyrra. Þau eru þegar orðin sjö það sem af er þessu ári. fréttablaðið/GVA
Íslenska kauphöllin vísaði einu máli til frekari rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) í aprílmánuði vegna gruns um markaðsmisnotkun. Alls hefur Kauphöllin vísað tveimur slíkum málum til eftirlitsins það sem af er árinu 2012. Hvorki FME né Kauphöllin vilja gefa upp hverjum málin tengjast né hvert umfang þeirra er.

Í yfirliti yfir eftirlitsmál NASDAQ OMX Iceland, betur þekkt sem Kauphöll Íslands, fyrir aprílmánuð kemur fram að einu máli hafi verið vísað til FME í þeim mánuði vegna gruns um markaðsmisnotkun. Þetta er þó fjarri því að vera eina málið sem Kauphöllin hefur vísað til FME það sem af er ári.

Í janúar vísaði hún einu máli til FME vegna þess að ákveðnar upplýsingar voru ekki gerðar opinberar í gegnum tilkynningakerfi Kauphallarinnar áður en þær voru gerðar opinberar á öðrum vettvangi. Auk þess vísaði hún einu máli til eftirlitsins í þeim mánuði vegna gruns um markaðsmisnotkun, einu vegna þess að ekki var tilkynnt með fullnægjandi hætti um innherjaviðskipti og einu máli vegna þess að grunur lék á um innherjasvik. Auk þess vísaði Kauphöllin tveimur málum til FME í febrúar og mars.

Fréttablaðið beindi fyrirspurn til Kauphallarinnar um nýjasta markaðsmisnotkunarmálið. Í svari hennar kemur fram að Kauphöllinni sé „skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef grunur eða vitneskja er um að brotin hafi verið lög, reglugerðir eða aðrar reglur sem gilda um viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði eða brotið hafi verið gróflega eða ítrekað gegn reglum Kauphallarinnar. Mál er varða grun um markaðssvik (e. market abuse) falla þarna undir.

Til markaðssvika telst markaðsmisnotkun". Ekki var hægt að fá upplýsingar um hverja málið snertir né um umfang þess.

Í svari FME við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að það skoði allar ábendingar frá Kauphöllinni og „afgreiðir þær á viðeigandi hátt. Í einhverjum tilvikum getur niðurstaðan verið sú að aðhafast ekki frekar í málinu, í öðrum tilvikum leggur Fjármálaeftirlitið stjórnvaldssekt á viðkomandi fyrirtæki eða sendir málið áfram til lögreglunnar. Við getum því miður hvorki gefið þér dagsetningu né nánari upplýsingar sem þú ferð fram á".

Kauphöllin birti yfirlit yfir eftirlitsmál hjá sér á árinu 2011 í byrjun þessa árs. Þar kom fram að átta mál hefðu verið send áfram til FME vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði og tólf mál sem lutu að viðskiptum með verðbréf.

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×