Innlent

Heimaey sigldi í höfn í Vestmannaeyjum í gær

Heimaey VE 1 Skipið er allt hið glæsilegasta og er aðbúnaður áhafnar um borð eins og best verður á kosið.fréttablaðið/Óskar
Heimaey VE 1 Skipið er allt hið glæsilegasta og er aðbúnaður áhafnar um borð eins og best verður á kosið.fréttablaðið/Óskar
Heimaey VE 1, glæsilegt uppsjávarveiðiskip Ísfélagsins í Vestmanneyjum, kom til heimahafnar í gær. Skipið hefur verið í smíðum í fimm ár, en smíði þess tafðist vegna náttúruhamfara í smíðalandinu Síle. Fjölmenni safnaðist saman í Friðarhöfn í Eyjum til að taka á móti hinu glæsilega skipi og áhöfn þess en það var Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins, sem tók á móti landfestum þegar til hafnar var komið.

Ólafur Einarsson, skipstjóri á Heimaey, segir skipið vera sjóborg, eins og komið hafi í ljós í erfiðu veðri og sjólagi á heimleiðinni. „Við fengum allar stærðir og gerðir af veðri, en þetta gekk mjög vel."

Fyrstu verkefni Heimaeyjar eru makrílveiðar sumarsins en áður en að þeim kemur þarf að prófa skipið og fá allt til að virka áður en haldið er til veiða. Hvenær það verður liggur ekki fyrir.

Ólafur segir að öll aðstaða um borð sé til fyrirmyndar og tilhlökkunarefni fyrir áhöfn að halda til veiða á nýju glæsilegu skipi.

Skipið er af nýrri kynslóð uppsjávarskipa, rúmlega 71 metra langt og 14 metra breitt. Burðageta þess er um tvö þúsund tonn í tíu kælitönkum. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×