Innlent

Búist við stýrivaxtahækkun í dag

Búist er við því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynni um stýrivaxtahækkun í dag. Verðbólga það sem af er ári hefur reynst meiri en spár bankans sögðu til um þrátt fyrir að bankinn hafi tvisvar hækkað vexti síðasta hálfa árið.

Verðbólga mælist nú 6,4%, sem er langtum hærra en 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans, og hefur lítið breyst frá ársbyrjun. Af þeim sökum spáir greiningardeild Arion banka 0,5 prósentustiga hækkun en greiningardeild Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spá 0,25 prósentustiga hækkun.

Í hagspá Arion banka sem kynnt var í síðustu viku er gert ráð fyrir að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði út árið 2014. Helstu ástæðurnar sem taldar eru til eru áframhaldandi gengisveiking krónunnar, aukinn launaþrýstingur og væntar verðhækkanir á fasteignamarkaði. Sé staðan á Íslandi borin saman við ríki Evrópu kemur í ljós að verðbólga er einungis meiri í Tyrklandi.

Verðbólga hefur verið mest í Eystrasaltsríkjunum, að undanskildum Tyrklandi og Íslandi, síðustu misseri. Þar hefur hún heldur farið minnkandi upp á síðkastið.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×