Erlent

Byssum beitt á mótmælendur

Mótmælendur Herinn tók af hörku á mótmælendum og beitti bæði skotvopnum og táragasi.nordicphotos/afp
Mótmælendur Herinn tók af hörku á mótmælendum og beitti bæði skotvopnum og táragasi.nordicphotos/afp
Herinn í Sýrlandi beitti bæði skotvopnum og táragasi gegn mótmælendum í Aleppo, sem er fjölmennasta borg landsins.

Þúsundir manna hafa safnast þar saman síðustu daga til að mótmæla stjórn Bashirs al-Assads forseta. Til þessa hefur lítið verið um mótmæli í þessari borg, en það hefur breyst eftir að árás á stúdentagarða í borginni í byrjun mánaðarins varð fjórum háskólanemum að bana.

Á fimmtudaginn tóku um fimmtán þúsund háskólanemar þátt í mótmælunum. Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna fylgdust með þangað til öryggissveitir stjórnvalda stöðvuðu mótmælin. Í gær voru þátttakendurnir orðnir enn fleiri og þúsundir mótmæltu að auki víðs vegar um landið.

Robert Mood, hinn norski yfirmaður friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, sagði í gær að friðargæslusveitir gætu aldrei komið á friði í landinu nema allir aðilar ágreiningsins, jafnt innlendir sem erlendir, sýni raunverulegan vilja til að ræða saman.

„Ég er orðinn sannfærðari en nokkru sinni um að aldrei verði hægt að leysa þennan vanda með ofbeldi, sama hve mikið það er," segir Mood.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×