Erlent

Obama tekur undir hugmyndir Hollandes

Komnir í stellingar Að venju flykkjast mótmælendur á leiðtogafund G8-ríkjanna í Bandaríkjunum.Fréttablaði/AP
Komnir í stellingar Að venju flykkjast mótmælendur á leiðtogafund G8-ríkjanna í Bandaríkjunum.Fréttablaði/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti tekur undir hugmyndir Francois Hollande Frakklandsforseta um að nú þurfi ríki heims að einbeita sér að hagvextinum frekar en að horfa eingöngu á sparnað og aðhald í ríkisfjármálum.

Hollande, sem er nýtekinn við af Nicolas Sarkozy, hóf nokkurra daga heimsókn sína til Bandaríkjanna á fundi með Obama, en síðan mættu þeir báðir á leiðtogafund G8-ríkjanna í Camp David, þar sem efnahagserfiðleikar Grikklands og fleiri evruríkja eru í brennidepli.

Að þeim fundi loknum hefst í Chicago tveggja daga leiðtogafundur NATO-ríkjanna, þar sem Hollande þarf væntanlega að svara fyrir áform sín um að kalla franska herliðið heim frá Afganistan fyrir lok ársins, eða tveimur árum fyrr en forveri hans hafði hugsað sér.

Horfurnar í skuldugustu evruríkjunum hafa heldur versnað undanfarna viku, eftir að Grikkjum mistókst að mynda ríkisstjórn og matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfismat grískra banka, auk þess sem matsfyrirtækið Moodys hefur lækkað lánshæfismat fjögurra héraða á Spáni.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bar hins vegar í gær til baka fréttir um að á vegum hennar sé verið að vinna að neyðaráætlun til undirbúnings hugsanlegu brotthvarfi Grikklands af evrusvæðinu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×