Viðskipti innlent

Milljarðastríð um Bakkavör

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar, hafa varið um sex milljörðum króna í kaup á hlutum í Bakkavör af íslenskum aðilum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Á meðal þeirra sem hafa selt þeim hluti eru þrotabú Glitnis og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Bræðurnir buðu fyrst um 70 aura í hverja nafnverðskrónu en bjóðast nú til þess að kaupa á yfir eina krónu. Innra virði félagsins miðað við eigið fé er 20 milljarðar.

Á hluthafafundi Bakkavarar Group í gær var samþykkt að slíta íslenska félaginu en kröfuhafar eignast á móti hlut í nýju bresku móðurfélagi samstæðunnar. Á aðalfundi Bakkavarar í maí var samþykkt að leyfa bræðrunum að kaupa fjórðungshlut í félaginu á um fjóra milljarða. Heimildir Fréttablaðsins herma að aðilar á þeirra vegum hafi síðan reynt að kaupa út aðra hluthafa. Hefur þeim orðið nokkuð ágengt og eiga nú ríflega 30% hlut í félaginu.

Greint hefur verið frá því að félög í eigu bræðranna, Korkur Invest og BV Finance, hafi undanfarið komið með umtalsverða fjármuni til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Þannig greindi Morgunblaðið frá því í gær að bræðurnir hefðu komið með 463 milljónir til landsins í júlí og þá gaf Korkur Invest út 1,5 milljarða skuldabréf í maí eftir að hafa nýtt sér fjárfestingarleiðina. Fjárfestingarleiðin er liður í áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta en með henni er fjárfestum gefinn kostur á að kaupa krónur fyrir erlendan gjaldeyri með um 20% afslætti.

Stærsti einstaki hluthafi Bakkavarar nú er Arion banki með 34% hlut. Þá á Lífeyrissjóður verzlunarmanna 7% og Gildi lífeyrissjóður um 5%. Þessir aðilar hafa staðið gegn því að bræðurnir eignist meirihluta í félaginu. Vill hópurinn frekar ræða við erlenda aðila sem hafa lýst yfir áhuga á að kaupa hluti á allt að 1,5 krónur á hlut. Þær þreifingar eru þó á frumstigi.- þsj / mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×