Innlent

Ættleiðingum fækkar á Norðurlöndunum

í kína Flest börn sem ættleidd eru til Íslands koma frá Kína. nordicphotos/afp
í kína Flest börn sem ættleidd eru til Íslands koma frá Kína. nordicphotos/afp
Rúmlega fjögur hundruð færri börn voru ættleidd til Norðurlandanna í fyrra en árið þar áður, sem er 26 prósenta fækkun. Ættleiðingum fækkar til allra ríkjanna nema Íslands.

Mest fækkaði ættleiðingunum í Noregi eða um 61 prósent. Árið 2010 voru 343 börn ættleidd erlendis frá en í fyrra voru þau aðeins 113. Í Danmörku fækkaði ættleiðingum um rúm nítján prósent, úr 419 í 338. Til Svíþjóðar voru 532 börn ættleidd í fyrra miðað við 643 árið 2010, og fækkunin var því rúm sautján prósent. Í Finnlandi stóð fjöldi ættleiðinga nánast í stað, fóru úr 134 í 132.

Ísland er eina ríkið þar sem ættleiðingum fjölgaði milli ára, úr átján árið 2010 í nítján í fyrra. Fjöldi ættleiðinga til landsins er aðeins um 60 prósent af því sem var um miðjan síðasta áratug, að því er fram kemur í upplýsingum Íslenskrar ættleiðingar. Fjöldinn er þó tvöfaldur á við það sem minnst hefur verið, en árið 2006 voru átta börn ættleidd til landsins.

Að sögn Íslenskrar ættleiðingar má rekja afleiðingar fækkunarinnar til Haag-samningsins um ættleiðingar, sem snýr að hagsmunum barna. Reglur eru strangar og skrifræði hefur aukist, sem hægir á ættleiðingarferlinu auk þess sem börn sem hægt er að ættleiða eru færri og eldri. Fækkun ættleiðinga kom fyrr fram hér á landi en í hinum ríkjunum. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×