Viðskipti innlent

Hagnaðist um 1,7 milljarða

Steinþór Pálsson
Steinþór Pálsson
Landsbankinn hagnaðist um tæplega 1,7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi ársins. Bankinn birti uppgjör sitt fyrir fjórðunginn á fimmtudag. Uppsafnaður hagnaður fyrstu níu mánuði ársins er þar með 13,5 milljarðar en til samanburðar var hagnaður 27,0 milljarðar á sama tímabili í fyrra.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir afkomu bankans einkennast af neikvæðri þróun á virðisbreytingum útlána en að öðru leyti sé rekstur bankans á áætlun.

Á fyrstu níu mánuðum ársins voru hreinar vaxtatekjur bankans 26,4 milljarðar en voru 24,6 á sama tímabili í fyrra. Hreinar þjónustutekjur voru hins vegar 3,1 milljarður og minnkuðu um 7% milli ára. Rekstrarkostnaður var 17,8 milljarðar og jókst um 15% milli ára.

Þá færði bankinn útlán niður um ríflega sjö milljarða sem er meðal annars tilkomið vegna gjaldfærslu í tengslum við yfirtökuna á SpKef og vegna endurútreikninga gengistryggðra lána.

Heildareignir bankans í lok september voru 1.057 milljarðar og var eiginfjárhlutfall (CAD) hans 24,1%. Þá er lausafjárhlutfall 46%. Því er nokkurt svigrúm til arðgreiðslna sem gætu hafist á næsta ári.

Ríkissjóður á ríflega 81% hlut í Landsbankanum en Landsskil, dótturfélag gamla Landsbankans, á tæplega 19%.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×