Innlent

Styrkja og fræða ungt fólk

Verðlaunin afhent Jafningjafræðslan hlaut viðurkenningu Barnaheilla í ár. Fréttablaðið/Gva
Verðlaunin afhent Jafningjafræðslan hlaut viðurkenningu Barnaheilla í ár. Fréttablaðið/Gva
Jafningjafræðslan hlaut í gær Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2012 fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda.

Jafningjafræðsla framhaldsskólanna, sem rekin er af Hinu húsinu, er fræðslu- og forvarnaverkefni fyrir ungt fólk. Jafningjafræðslan var stofnuð á Íslandi árið 1996 af menntaskólanemum og studd danskri fyrirmynd. Upphaflega var Jafningjafræðslan stofnuð til að sporna við og draga úr neyslu vímuefna en á þessum tíma hafði fíkniefnanotkun skyndilega aukist hér á landi.

Hugmyndafræðin er í stuttu máli sú að „ungur fræðir unga" og eru fræðararnir allir á aldrinum 17-21 árs. Forvarnir eru unnar af ungu fólki fyrir ungt fólk. Víða um heim eru í gangi verkefni sem byggja á þessari hugmyndafræði.

Fjölbreytni þeirra er mikil en í flestum tilfellum er unnið að kennslu eða forvörnum gegn ýmiss konar heilsufarslegum vandamálum svo sem HIV-smiti, óábyrgri kynlífshegðun og vímuefnaneyslu svo eitthvað sé nefnt. Í seinni tíð hefur einnig verið lögð áhersla á sjálfsmynd ungs fólks og leitast við að styrkja hana og efla.

Barnaheill veita árlega viðurkenninguna í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. - kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×