Viðskipti innlent

Yfir 100 milljón sms send á sex mánuðum

snjallsímar Notkun Íslendinga á 3G hefur stóraukist.
snjallsímar Notkun Íslendinga á 3G hefur stóraukist.
Íslendingar sendu 102 milljónir sms-skilaboða á fyrri hluta þessa árs. Það er tæplega tólf prósentum meira en á fyrri hluta síðasta árs. Viðskiptavinir Nova sendu langflest sms-skeytin, eða 63 milljónir.

Það þýðir að markaðshlutdeild Nova á sms-markaði er 61,3 prósent. Þetta kemur fram í nýbirtri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn. Skilaboðasendingum Nova hefur fjölgað samhliða mikilli aukningu viðskiptavina fyrirtækisins.

Viðskiptavinir Nova senda líka flest mms-skilaboð, eða myndskilaboð, en hlutdeild fyrirtækisins hefur dregist mjög saman á undanförnum árum. Nova var með 53 prósent markaðshlutdeild um mitt ár 2010 en er nú með 40 prósent.

Síminn hefur nánast fimmfaldað þann fjölda mms-skilaboða sem viðskiptavinir fyrirtækisins senda frá miðju ári 2010 og hefur í leiðinni hækkað markaðshlutdeild sína úr 11 prósentum í 26 prósent.

Þá vekur athygli að í fyrsta sinn eru fleiri farsímanotendur með 3G-kort en 2G. Um mitt ár í fyrra voru 209 þúsund 2G-kort en 168 þúsund 3G-kort. Nú hefur 2G-kortunum fækkað niður í 183 þúsund en 3G-kortunum fjölgað í 210 þúsund.

Samhliða hefur gagnamagn á farsímaneti aukist mikið. Það hefur farið úr því að vera 236 milljónir megabæta um mitt ár 2010 í 590 milljónir megabæta á fyrri hluta þessa árs.- þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×