Körfubolti

Grindvíkingar sóttu tvö stig í Hólminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Árni Ólafsson
Jóhann Árni Ólafsson Mynd/Vilhelm
Frábær fyrsti og fjórði leikhluti skilaði Grindvíkingum sex stiga sigri á Snæfelli, 90-84, í Stykkishólmi í 13. umferð Dominos-deild karla í kvöld en liðin voru jöfn á toppnum fyrir leikinn. Grindavík hefur unnið báða leikina á móti Snæfelli í vetur sem gæti reynst liðinu afar dýrmætt í æsispennandi toppbaráttu deildarinnar.

Grindavík vann fyrsta leikhlutann 24-15 og fjórða leikhlutann 30-18 en Snæfellingar voru hinsvegar mun betri í öðrum og þriðja leikhlutanum.

Jóhann Árni Ólafsson átti frábæran leik hjá Grindavík og skoraði 23 stig en Þorleifur Ólafsson var með 18 stig og 5 stoðsendingar. Jay Threatt var með 23 stig og 9 stoðsendingar hjá Snæfelli og Asim McQueen skoraði 22 stig og tók 12 fráköst.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn frábærlega og voru komnir í 7-0 eftir aðeins 65 sekúndur. Jóhann Árni Ólafsson skoraði öll sjö stigin.

Grindavík var með níu stiga forskot, 24-15, við lok fyrsta leikhlutans. Snæfellingar náðu að minnka muninn niður í fimm stig fyrir hlé en staðan var 45-40 fyrir Grindavík í hálfleik.

Grindvíkingar komust mest ellefu stigum yfir í þriðja leikhlutanum en Snæfellsliðið náði frábærum 15-0 spretti í seinni hluta hans með Jay Threatt í fararbroddi og Snæfell var með sex stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 66-60.

Grindvíkingar unnu fyrstu fjórar mínútur fjórða leikhlutans 11-2 og tóku frumkvæðið í leiknum á ný. Grindavík var 11 stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en Snæfell náði að minnka muninn niður í tvö stig. Grindavík hélt hinsvegar út og fagnaði dýrmætum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×