Handbolti

Miklar breytingar á liði Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sex leikmenn yfirgefa herbúðir Füchse Berlin í sumar en það var tilkynnt á fjölmennum blaðamannafundi í Berlín í dag.

Fundurinn var haldinn í Sjónvarpsturninum í Berlín þar sem forráðamenn liðsins, þeirra á meðal þjálfarinn Dagur Sigurðsson, tilkynntu að miklar breytingar yrðu gerðar á leikmannahópi Füchse Berlin í sumar.

Þeir sex leikmenn sem fara frá liðinu í sumar eru Johannes Sellin, fyrirliðinn Torsten Laen, Evgeni Pevnov, Ivan Nincevic, Mark Bult og Börge Lund. Ljóst er að Sellin fer til Melsungen og Laen aftur til Danmerkur. Hinir verða samningslausir í sumar.

„Allir þessir leikmenn voru tilbúnir að gefa allt sitt fyrir liðið," sagði framkvæmdarstjórinn Bob Hanning. „En stundum er breytinga þörf og við viljum halda okkar liði í ákveðnum gæðaflokki. Það á að vera sérstök tilfinning að spila í búningi Füchse Berlin."

Á fundinum var einnig tilkynnt að þrír sænskir leikmenn kæmu til liðsins í sumar. Þetta eru þeir Matthias Zachrisson frá Guif, Fredrik Petersen frá Hamburg og Jesper Nielsen frá Sävehof. Allir leikmenn sem munu styrkja liðið mikið. Þá kemur Pavel Horak til liðsin frá Göppingen, þar sem hann hefur skorað mikið að undanförnu.

Þar að auki verða leikmenn teknir upp úr unglingastarfi félagsins en það hefur verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár. Þeirra á meðal eru Jonas Thümmler og Fabian Wiede sem báðir hafa gert þriggja ára samninga við atvinnumannalið Füchse Berlin.

Liðið er nú í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 28 stig, sjö stigum á eftir toppliði Rhein-Neckar Löwen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×