Handbolti

Einar Ingi fer frá Mors-Thy

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Ingi Hrafnsson.
Einar Ingi Hrafnsson. Mynd/Stefán
Línumaðurinn Einar Ingi Hrafnsson mun ekki fá nýjan samning hjá danska úrvalsdeildarliðinu Mors-Thy nú í sumar.

Þetta kemur fram í dönskum fjölmiðlum í dag. Forseti félagsins, Heino Vigsö, segir að liðið hafi ekki fengið jafn mikið úr Einari Inga nú og á síðasta tímabili og því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

„Hann hefur aðeins fallið í gæðum og fjárhagsáætlun leyfir ekki að við höldum honum áfram á næsta ári. Ástæðurnar eru því bæði af íþróttalegu og fjárhagslegu sjónarmiði," sagði Morsö.

Einar Ingi er sagður hafa áhuga á að spila áfram í sterkustu deildum Evrópu, hvort sem er í Danmörku, Þýskalandi eða Frakklandi.

Einar Ingi er Mosfellingur sem lék með Aftureldingu, Fram og HK áður en hann hélt til Nordhorn í Þýskalandi árið 2009. Hann var valinn í íslenska landsliðið haustið 2011 en handarbrotnaði á sinni fyrstu landsliðsæfingu.

Unnusta hans er Þórey Rósa Stefánsdóttir sem leikur með Team Tvis Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×