Körfubolti

Treyjan hans Shaq snýr öfugt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Treyjurnar sem hanga í Staples Center. Treyja Shaq sker sig úr.
Treyjurnar sem hanga í Staples Center. Treyja Shaq sker sig úr. Mynd/AP
Forráðamenn Los Angeles Lakers gerðu sig seka um klaufaleg mistök þegar þeir hengdu treyju Shaquille O'Neal upp í rjáfur í Staples Center höllinni í Los Angeles í vikunni.

Það hefur ekki fengist staðfest hvort hér sé á ferðinni grín hjá hinum skemmtilega Shaquille O'Neal en það sem hefur verið staðfest er að treyja Shaq, sem hangir í loftinu í Staples Center, snýr öfugt.

Shaq var heiðraður í hálfeik á leik Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta á þriðjudaginn þegar Lakers-menn hengdu upp treyju með númerinu hans, 34.

Þegar menn fóru að skoða betur treyjuna hans kom í ljós að hún snýr fram en ekki aftur eins og treyjur alla goðsagnanna við hliðina. O'Neal nafninu hafði verið skellt framan á treyjuna en eins og kunnugt er þá spila NBA-leikmenn með nöfnin sín á bakinu.

Forráðamenn Los Angeles Lakers hafa viðurkennt mistök sín og eru að vinna í því að koma "réttri" treyju á sinn stað. Þangað til sker treyja Shaquille O'Neal sig svo sannarlega út meðal þeirra goðsagna í sögu Los Angeles Lakers sem hafa verið heiðraðir með þessum hætti.

Shaquille O'Neal lék með Los Angeles Lakers frá 1996 til 2004 og varð meistari með liðnu 2000, 2001 og 2002. Hann var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar 2000 og var stigakóngur sama ár.

Þessir eiga treyju hangandi í Staples Center:

13 - Wilt Chamberlain (1968–1973)

22 - Elgin Baylor (1958–1971)

25 - Gail Goodrich (1965–1968, 1970–1976)

32 - Magic Johnson (1979–1991, 1996)

33 - Kareem Abdul-Jabbar (1975–1989)

34 - Shaquille O'Neal (1996–2004)

42 - James Worthy (1982–1994)

44 - Jerry West (1960–1974)

52 - Jamaal Wilkes (1977–1985)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×