Körfubolti

NBA í nótt: Tíundi sigur New York í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Carmelo Anthony hefur nú skorað 90 stig í síðustu tveimur leikjum sínum með New York Knicks í NBA-deildinni í körfubolta.

Anthony skoraði 40 stig í nótt þegar að New York hafði betur gegn Atlanta á útivelli, 95-82. Þetta var tíundi sigur New York í röð.

Anthony skoraði 50 stig í sigri á Miami í fyrrinótt og var kominn með 24 stig strax í fyrri hálfleik í nótt. Hann nýtti alls sautján af 27 skotum sínum utan af velli.

Raymond Felton skoraði einnig mikilvægar körfur á lokasprettinum, þar af þrjár í röð í 12-2 spretti í fjórða leikhluta.

Kyle Korver skoraði 25 stig fyrir Atlanta en það dugði ekki til að þessu sinni.

New York er í öðru sæti Austurdeildarinnar en Miami, sem spilaði ekki í nótt, er með þægilega forystu á toppnum.

LA Clippers setti nýtt félagsmet er liðið vann sinn 50. sigur á tímabilinu í nótt. Liðð mætti Phoenix og vann auðveldlelga, 126-101.

DeAndre Jordan var með 20 stig og tólf fráköst fyrir Clippers og Chris Paul var með fjórtán stig og tólf stoðsendingar.

Memphis setti einnig félagsmet með sigri á Portland, 94-76. Liðið hefur nú unnið 51 leik á tímabilinu sem er það mesta í sögu félagsins.

San Antonio styrkti stöðu sína á toppi Vesturdeildarinnar með sigri á Orlando, 98-84. Þá komst Lakers upp í áttunda sæti deildarinnar, þrátt fyrir að liðið spilaði ekki, þar sem að Utah tapaði fyrir Denver í nótt.

Utah hafði unnið fimm leiki í röð og náð að ýta Lakers úr áttunda sæti deildarinnar en átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina í vor.

Úrslit næturinnar:

Toronto - Washington 88-78

Charlotte - Philadelphia 88-83

Atlanta - New York 82-95

Cleveland - Brooklyn 95-113

Boston - Detroit 98-93

Milwaukee - Minnesota 98-107

San Antonio - Orlando 98-84

Utah - Denver 96-113

Sacramento - Houston 102-112

Portland - Memphis 76-94

L.A. Clippers - Phoenix 126-101

Golden State - New Orleans 98-88

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×