Íslenski boltinn

Ingó Veðurguð skoraði í fyrsta sigri Selfyssinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel

Selfoss og Grindavík, liðin sem féllu úr Pepsi-deild karla síðasta haust, unnu bæði útisigra í leikjum sínum í 1. deild karla í kvöld en þau höfðu bæði tapað á heimavelli í fyrstu umferðinni.

Hér fyrir ofan má sjá myndir Daníels Rúnarssonar frá leik Víkinga og Selfoss í kvöld.

Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, skoraði fyrra mark Selfoss í 2-1 útisigri á Víkingum í Víkinni. Ingólfur Þórarinsson skoraði markið sitt á 27. mínútu en Magnús Ingi Einarsson bætti við öðru marki á 50. mínútu. Igor Taskovic minnkaði muninn í lokin en Magnús Ingi hafði þá fengið sitt annað gula spjald. Þetta voru fyrstu mörk Selfyssinga í sumar en liðið tapaði 0-1 á móti KA í 1. umferðinni.

Jordan Lee Edridge skoraði eina markið þegar Grindvíkingar sóttu Hauka heim á Schenkervöllinn á Ásvöllum. Sigurmarkið hans Edridge kom strax á 34. mínútu leiksins.

Öll þessi fjögur lið sem voru að spila í kvöld, Selfoss, Grindavík, Haukar og Víkingur, hafa nú þrjú stig. 2. umferðin klárast síðan með fjórum leikjum á morgun.

Guðmundur Atli Steinþórsson tryggði HK 1-0 sigur á ÍR í eina leik kvöldsins í 2. deild karla en markið hans kom út vítaspyrnu strax á áttundu mínútu leiksins.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×