Körfubolti

San Antonio náði forystunni á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordiic Photos / Getty Images
Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. San Antonio og Indiana unnu þá sigra á heimavelli.

San Antonio hafði betur gegn Golden State, 109-91, og náði þar með undirtökunum í rimmunni á ný eftir að hafa tapað framlengdum leik um helgina. Staðan er nú 3-2 en Golden State á næsta leik á heimavelli.

Leikmenn San Antonio höfðu mikið fyrir sigrinum en mestu munaði að Stephen Curry skoraði aðeins níu stig í leiknum í nótt. Hinn skotbakvörðurinn í byrjunarliði Golden State, Klay Thompson, skoraði aðeins fjögur stig.

„Ég var hræðilegur, svo ekki sé meira sagt,“ sagði Curry eftir leikinn. „Þeir yfirspiluðu okkur sem lið.“

Tony Parker átti stórleik fyrir San Antonio en hann skoraði 25 stig auk þess að gefa tíu stoðsendingar. Hann nýtti níu af sextán skotum sínum og tapaði boltanum aðeins tvisvar.

Nýliðinn Harrison Barnes skoraði 25 stig fyrir Golden State og Jarret Jack var með 20.

Indiana vann New York og er komið í 3-1 forystu. George Hill skoraði 26 stig og Paul George var með átján stig, fjórtán fráköst og sjö stoðsendingar.

Þess má geta að kempurnar Reggie Miller og Rik Smits voru báðir í húsinu en þeir voru lykilmenn í frægum rimmum þessara liða á tíunda áratugnum.

Það var fyrst og fremst varnarleikur Indiana sem skóp sigurinn og hélt New York í skefjum í seinni hálfleik.

Carmelo Anthony skoraði 24 stig fyrir New York en ekkert á síðustu tólf mínútum leiksins.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×