Íslenski boltinn

Lærið opnað að aftan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán

„Hún er með risastóran skurð eftir að lærið var opnað að aftan," sagði landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson um meiðsli Margrétar Láru Viðarsdóttur.

Í gær voru 50 dagar í að EM kvenna hæfist í Svíþjóð en landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson tilkynnti þá 23 manna leikmannahóp fyrir æfingaleik gegn Skotum á Laugardalsvelli þann 1. júní næstkomandi.

Margrét Lára missti af landsleikjum vetrarins en hefur verið að spila með liði sínu, Kristianstad í Svíþjóð, að undanförnu.

„Ég sá hana spila gegn Malmö,“ sagði Sigurður Ragnar á blaðamannafundi KSÍ í gær. „Hún hefur fengið fleiri og fleiri mínútur og það er góður stígandi hjá henni.“

„Hún fór í stóra aðgerð í byrjun nóvember og við vissum að það yrði knappt fyrir hana að ná mótinu í sumar. En það eru enn 50 dagar til stefnu og munar miklu um það.“

„Fyrst og fremst vonumst við auðvitað til þess að hún verði laus við þessi meiðsli sem höfðu hrjáð hana svo árum skiptir. Það er aðalatriðið.“

Sigurður valdi alla sterkustu leikmenn sína í hópinn gegn Skotum og gaf þar með sterka vísbendingu um hvaða leikmenn standa best að vígi um að vinna sér sæti í EM-hópnum í sumar.

„Það kemur kannski betur í ljós eftir leikinn gegn Skotum hvernig staðan er á leikmönnum en það er ljóst að við munum stilla upp sterku liði,“ sagði Sigurður Ragnar sem endurheimti marga leikmenn í liðið sem forfölluðust í verkefni liðsins í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×