Körfubolti

Pistill: Rándýr Frakki

Baldur Beck skrifar
Tony Parker í baráttu við LeBron James í nótt.
Tony Parker í baráttu við LeBron James í nótt. Nordicphotos/AFP

San Antonio átti draumabyrjun í úrslitaeinvíginu í nótt þegar það stal fyrsta leiknum í Miami með dramatískum 92-88 sigri á heimamönnum. Tony Parker stal senunni og innsiglaði sigurinn með fáránlegri sigurkörfu fimm sekúndum fyrir leikslok.

Vonandi snýst umræðan eftir leikinn um eitthvað annað en að LeBron James hafi ekki skorað yfir 30 stig.  Hann var reyndar búinn að skora yfir 20 stig í tólf leikjum í röð áður en hann skilaði "bara" átján stigum gegn Spurs í nótt (og átján fráköstum og tíu stoðsendingum), en hann var líka ekki að spila á móti liðum þjálfuðum af Gregg Popovich.

Nei, umræðan ætti að snúast um það hvað þessi sigur er rosalega mikilvægur fyrir San Antonio eftir alla þessa hvíld - og hvað Tony Parker er búinn að líma nafn sitt í sögubækurnar, hafi hann ekki þegar verið búinn að því.

Við værum að gera lítið úr leik hans ef við gerðum ekki annað en að hrósa honum fyrir sigurkörfuna, sem auðvitað hafði eitthvað með heppni að gera.

Snúningskarfan sem hann skoraði rétt á undan, leikstjórn hans og sú staðreynd að hann tapaði ekki einum einasta bolta í leiknum, segja meira um frammistöðu hans. Þetta er bara snillingur.

Tim Duncan setur tvö stig í Miami.Nordicphotos/AFP

Það var ekkert annað en upplifun að horfa á þessi lið kljást og það má ekki ein einasta amma eða antísportisti missa af restinni af þessu einvígi.

Áhugavert að sjá Dwyane Wade spila miklu, miklu betur en hann gerði í helmingnum af leikjunum gegn Indiana. Virkaði ekki mikið að honum í þessum leik. Chris Bosh? Bleh.

Chris Bosh er Chris Bosh. Við setjum spurningamerki við öll þessi langskot hans, en það er engin tilviljun að hann sé að taka þau. San Antonio vill að hann taki þau - og Spoelstra þjálfari hans treystir honum til að taka þau. Annars væri hann ekki að taka þau hvað eftir annað, hvað sem þér finnst svo um það.

Við værum auðvitað ekki að tala um þetta ef hann hefði sett eitthvað af þeim niður, sérstaklega það síðasta.

Pistilinn í heild sinni má lesa hér.

LeBron skoraði átján stig í leiknum sem er lægsta skor hans í úrslitakeppninni í ár.Nordicphotos/AFP

Baldur Beck er körfuboltalýsandi á Stöð 2 Sport og heldur úti bloggsíðunni NBA Ísland. Þá er hann reglulega með hlaðvarp og það nýjasta, þar sem fjallað er um úrslitaeinvígið, má nálgast hér (13. þáttur).

NBA

Tengdar fréttir

Þjálfari ársins í NBA-deildinni rekinn

Það er ekki alltaf dans á rósum að vera þjálfari í íþróttum. Það hefur þjálfari ársins í NBA-deildinni, George Karl, nú fengið að reyna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×