Fótbolti

Höfum bara einu sinni tapað fyrir Færeyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason í leiknum á móti Færeyjum í ágúst í fyrra.
Birkir Bjarnason í leiknum á móti Færeyjum í ágúst í fyrra. Mynd/Anton
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því færeyska í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í kvöld en þetta í 25. sinn sem þessar frændþjóðir mætast í A landsliðum karla.

Ísland hefur bara einu sinni tapað fyrir Færeyjum en það var í 1-2 tapi í Kórnum í mars árið 2009. Ísland hefur unnið 22 af þessum 24 leikjum og markatalan er 71-13 Íslandi í vil.

Íslenska landsliðið hefur því aldrei tapað utanhúss á móti Færeyjum og hefur jafnframt unnið alla fjóra landsleiki þjóðanna á Laugardalsvellinum og það með markatölunni 13-1.

Það vekur líka athygli að það er spilað upp á sigur í þessum leikjum því aðeins einn leikjanna hefur endað með jafntefli en það var í markalausu jafntefli í Færeyjum 1. ágúst 1984.

Ísland vann 2-0 sigur á Færeyjum í síðasta leik þjóðanna sem fram fór á Laugardalsvellinum fyrir ári síðan en Kolbeinn Sigþórsson skoraði bæði mörk Íslands í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×