Sport

Norðmönnum spáð frábæru gengi á ÓL í Sochi 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tora Berger.
Tora Berger. Mynd/NordicPhotos/Getty
Það styttist óðum í Vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi sem fara fram í febrúar á næsta ári, Tölfræði og upplýsingavefurinn Infostrada hefur sett saman spá um hvaða íþróttamenn munu vinna verðlaun á leikunum.

Norðmenn eiga von á góðu í febrúar samkvæmt þessari spá en hún gerir ráð fyrir metárangri hjá frændum okkar sem unnu níu gull og 23 verðlaun á síðustu vetrarleikum í Vancouver.

Infostrada gerir ráð fyrir því að norskir íþróttamenn vinni alls 37 verðlaun á leikunum í Sochi (15 gull, 12 silfur og 10 brons) sem myndi ekki bara bæta norska metið (26 verðlaun á Ól í Lillehammer 1994) heldur einnig jafna met Bandaríkjamanna frá því í Vancouver fyrir fjórum árum.

Starfsmenn Infostrada reiknuðu út líklegustu verðlaunahafa út frá frammistöðu íþróttafólksins í heimsbikarnum á þessu tímabili en tólf af fimmtán gullverðlaunum Norðmanna eiga að koma í skíðagöngu eða skíðaskotfimi.

Skíðaskotfimikonan Tora Berger verður kona leikanna ef marka má þessa spá en hún hefur verið óstöðvandi í heimsbikarnum og á samkvæmt spá Infostrada að vinna fjögur Ólympíugull í Rússlandi eftir áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×