Íslenski boltinn

Framarar hafa rætt við Láka og Sigga Ragga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorlákur Árnason.
Þorlákur Árnason. Mynd/Ernir
Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Þorlákur Árnason eru á óskalista Framara sem leita að þjálfara fyrir karlalið félagsins í knattspyrnu.

Ríkharður Daðason afþakkaði boð Fram um að halda áfram störfum á dögunum.

„Ef að það er einhvern tímann staður og stund til að spýta í lófana, taka smá „sjénsa“ og gefa sér færi á að ná að komast aftur upp á meðal þeirra bestu þá er það þegar þú kemst í Evrópukeppni," sagði Ríkharður við Fréttablaðið í vikunni.

Heimildir Vísis herma að Ríkharður hafi viljað nota þá peninga sem Fram fær vegna þátttöku í forkeppni Evrópudeildar til að styrkja liðið. Þar dansaði hann ekki í takti við stjórn knattspyrnudeildar Fram.

Sverrir Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, sagði í samtali við Vísi í gær að tveir menn væru efstir á blaðið. Hann sagði viðræður á góðu stigi en ekki líklegt að gengið yrði frá ráðningu fyrr en seint um helgina eða í næstu viku.

Samkvæmt heimildum Vísis hafa Framarar átt í viðræðum bæði við Þorlák Árnason, fyrrverandi þjálfara kvennaliðs Stjörnunnar, og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara.

Þorlákur, sem lét af störfum í Garðabænum á fimmtudaginn, vildi hvorki staðfesta né neita að hafa átt í viðræðum við Framara í samtali við Vísi. Hann ætlaði út úr bænum yfir helgina og taka því rólega. Hann viðurkenndi þó að hafa áhuga á að taka við karlaliði.

Sigurður Ragnar fór hins vegar í viðtal vegna starfs þjálfara enska kvennalandsliðsins í gær. Möguleiki er á að Sigurður Ragnar verði boðaður í framhaldsviðtal í kjölfarið. Því ekki ljóst hvenær hann ætti þess kost að gefa Frömurum skýrt svar.

Heimir Hallgrímsson var einnig á óskalista Framara. Heimi bauðst starfið en afþakkaði boð Safamýrarfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×