Fótbolti

Bendtner kláraði næstum því Ítala á Parken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner fagnar fyrra marki sínu.
Nicklas Bendtner fagnar fyrra marki sínu. Mynd/NordicPhotos/Getty
Nicklas Bendtner snéri aftur í danska landsliðið og skoraði bæði mörk liðsins í 2-2 jafntefli á móti Ítölum á Parken í undankeppni HM 2014 í í kvöld. Sigur hefði komið Dönum upp í annað sæti riðilsins en Ítalir höfðu þegar tryggt sér efsta sætið og farseðil til Brasilíu næsta sumar.

Það stefndi allt í 2-1 sigur Dana þegar Ítalir náðu að tryggja sér 2-2 jafntefli með jöfnunarmarki í uppbótartíma leiksins. Búlgarar eru þar með áfram í 2. sætinu á betri markatölu en Danir. Búlgarar töpuðu fyrr í dag á móti Armeníu en Armenar og Tékkar unnu sína leiki og eru aðeins einu stigi á eftir Búlgaríu og Danmörku.

Leikurinn byrjaði þó ekki vel fyrir Dani því Pablo Osvaldo, framherji Southampton, kom Ítalíu í 1-0 á 28. mínútu eftir sendingu frá Thiago Motta.

Nicklas Bendtner jafnaði hinsvegar leikinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir að hafa fengið sendingu frá Michael Krohn-Dehli.

Þeir félagar voru síðan aftur á ferðinni á 79. mínútu leiksins þegar Bendtner skoraði eftir sendingu frá Krohn-Dehli.

Það leit allt út fyrir að það yrði sigurmarkið en Alberto Aquilani, fyrrum leikmaður Liverpool, jafnaði metin á 91. mínútu eftir sendingu frá fyrrnefndum Osvaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×