Fótbolti

Belgar komnir á HM - Lukaku með bæði mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku skoraði tvö mörk.
Romelu Lukaku skoraði tvö mörk. Mynd/AP
Belgía tryggði sér farseðilinn á HM í Brasilíu með því að vinna 2-1 útisigur á Króatíu í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna í A-riðli. Belgum nægði bara jafntefli en hafa nú átta stiga forskot á Króatíu þegar aðeins einn leikur er eftir.

Romelu Lukaku, lánsmaður frá Chelsea, hefur farið á kostum með liði Everton í ensku úrvalsdeildinni og kappinn getur bara ekki hætt að skora. Lukaku skoraði bæði mörk Belga í sigrinum í kvöld og komu þau strax í fyrri hálfleiknum.

Steven Defour lagði upp fyrra markið en Marouane Fellaini, leikmaður Manchester United, átti sendinguna á Lukaku í öðru markinu sem átti þó eftir að hlaupa hálfan völlinn áður en hann skoraði.

Niko Kranjcar kom inn á sem varamaður á 76. mínútu og náði að minnka muninn í 2-1 á 83. mínútu.

Belgar hafa ekki komst á HM undanfarin ellefu ár, misstu af HM 2006 og HM 2010, en þeir voru síðasta með á stórmóti á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002.  

Belgía er ellefta þjóðin sem tryggir sér farseðil á HM í Brasilíu og þriðja þjóðin sem kemst áfram upp úr undankeppninni hjá UEFA. Brasilía, Japan, Ástralía, Íran, Suður-Kórea, Holland, Ítalía, Bandaríkin, Kosta Ríka og Argentína eru einnig með gulltryggt sæti í úrslitakeppni HM 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×