Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: ÍR - FH 24-23 | Baráttusigur hjá ÍR

Henry Birgir Gunnarsson í Austurbergi skrifar
Hann var ekki burðugur handboltinn hjá ÍR og FH í kvöld. Baráttan þeim mun meiri og ÍR-ingar höfðu betur í miklum baráttuleik. Arnór Freyr fór á kostum í marki ÍR.

Valgarður Gíslason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var í Austurbergi í kvöld og náði þessum skemmtilegu myndum hér fyrir ofan.

Fyrri hálfleikur var frekar furðulegur. Kannski fyrst og fremst fyrir þær sakir að leikurinn var skelfilega illa spilaður. Handboltinn hjá liðunum var langt frá því að vera boðlegur.

Glórulausar feilsendingar hvað eftir annað og hörmuleg langskot sem komust ekki nálægt markinu.

FH-ingar þó öllu slakari en þeir töpuðu aragrúa bolta í hálfleiknum. ÍR-ingar klaufar að refsa þeim ekki meira. Sóknarleikur ÍR máttlaus og lítil hætta af honum.

Eini maðurinn sem raunverulega gat eitthvað í fyrri hálfleik var Arnór Freyr, markvörður ÍR. Daníel Freyr einnig sterkur. Staðan 11-10 í hálfleik.

Sama baslið var á báðum liðum í síðari hálfleik. Þau héldust þó í hendur og munurinn nánast alltaf bara eitt mark.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en taugar ÍR-inga voru sterkari og Arnór Freyr varði lykilbolta sem tryggðu þeim sigurinn.

Frammistaða Arnórs í markinu og flottur leikur Guðna Más í sókninni lagði grunninn að sigrinum.

FH-ingar fjarri sínu besta. Daníel þokkalegur í markinu en aðrir geta betur.

Arnór: Fólkið á pöllunum kveikir í mérArnór Freyr Stefánsson, markvörður ÍR, fór hamförum í Austurberginu í kvöld og frammistaða hans hafði mikið að segja með útkomu leiksins.

"Það er ekki annað hægt en að finna sig vel hérna. Fólkið á pöllunum kveikir í mér. Stemningin hefur mikið að segja og þetta fólk kemur á alla leiki hjá okkur," sagði Arnór kátur.

"Við horfðum á þennan leik þannig að við kæmumst á toppinn með sigri. Þar viljum við vera og við teljum okkur vera með lið til þess að vera þar.

"Við höldum því innan liðsins hvað við teljum okkur geta náð langt í vetur. Við getum samt unnið alla og líka tapað fyrir öllum."

Einar Andri: Kunnum ekki að halda í toppsætiðEinar Andri Einarsson, þjálfari FH, var að vonum hundfúll með niðurstöðu kvöldsins.

"Ég varð fyrir vonbrigðum með spilamennsku liðsins. Mér fannst hún ekki vera nógu góð til þess að vinna hér í dag. Varnarleikurinn var fínn í fyrri hálfleik. Hann datt niður í þeim seinni og var afleitur síðustu tíu mínúturnar," sagði Einar Andri.

Þó svo FH hefði kastað frá sér ótal boltum, farið illa með vítin var liðið samt alltaf inn í leiknum.

"Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik var afleitur en hann fór aðeins í gang í þeim síðari. Sérstaklega út af Magnúsi Óla. Það verða einfaldlega fleiri leikmenn að leggja hönd á plóginn. Við fórum vissulega illa að ráði okkar en spilamennskan bauð ekki upp á neitt meira í dag," sagði Einar en hans lið féll af toppnum með tapinu.

"Við litum á þennan leik sem ákveðin prófstein fyrir okkur. FH-liðið síðustu ár hefur ekki náð að hanga í efsta sætinu og koma sér fyrir þar. Við erum yfirleitt að hanga í öðru til fjórða sæti allt tímabilið og við ætluðum að reyna að breyta því. Við verðum greinilega að laga þetta."

Mynd/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×