Fótbolti

Svona hélst grasið grænt í Laugardalnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason í leiknum á föstudagskvöldið.
Alfreð Finnbogason í leiknum á föstudagskvöldið. Mynd/Daníel
Laugardalsvöllurinn var heldur betur í toppstandi í fyrri umspilsleik Íslands og Króatíu á föstudagskvöldið og það þrátt fyrir að það væri kominn 15. nóvember og vetur konungur genginn í garð á Íslandi.

Vallarstarfsfólk KSÍ ásamt mörgum öðrum lögðu nótt við dag til að hafa völlinn í sem bestu ásigkomulagi og nú er hægt að sjá skemmtilegt myndband af því hvernig hlutirnir gengu fyrir sig dagana fyrir leikinn.

Það var fluttur inn dúkur frá Englandi sem var svo settur á völlinn en hann var blásinn upp með heitu lofti til að halda hita á vellinum.  Dúkur þessi varði einnig völlinn fyrir roki og rigningu og sá til þess að vatn fór ekki í völlinn sem hefði mögulega gert aðstæður afar erfiðar.

„KSÍ og leikmenn landsliðsins vilja þakka öllum þeim sem komu að því að gera aðstæður eins góðar og raun bar vitni en án þrotlausrar vinnu á vellinum undanfarnar vikur þá hefði íslenska liðið (og það króatíska) ekki getað boðið upp á þá skemmtun sem áhorfendur urðu vitni að seinasta föstudag," segir í frétt á heimasíðu KSÍ en hér fyrir neðan má sjá myndband sem sýnir vinnuna á Laugardalsvelli í aðdraganda leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×