Sport

Með vin sinn sem þjálfara í Matrix-leðurslopp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halldór Helgason.
Halldór Helgason.
„Það eru margir aðrir í þessu sem borða bara hollt, fara í ræktina á fullu, hoppa á trampólínum og gera ekki neitt annað en að æfa sig fyrir Ólympíuleikana,“ segir snjóbrettakappinn Halldór Helgason.

Halldór stefnir á þátttöku í brekkuþrautum (e. slopestyle) á Vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi í febrúar. Hann telur sig eiga fína möguleika á að komast þangað takist honum vel upp á móti í Colorado í desember og Kanada í janúar. 40 efstu á FIS-lista Alþjóðaskíðasambandsins öðlast þátttökurétt á leikunum.

„Ef maður skyldi komast á leikana væri það gaman, að afsanna að maður þurfi ekki að vera einhver 100% íþróttamaður sem þarf að hugsa bara um þetta til að ganga vel,“ segir Halldór í viðtali í Morgunblaðinu.

Hann vilji sömuleiðis ekki eyða of miklum tíma í undirbúning því gangi hlutirnir ekki upp hafi hann ekki fengið neitt út úr því. Halldór segist ekki trúa á að vera með landsliðsþjálfara.

„Ég myndi ekkert hlusta á einhvern gaur segja mér til sem hefði aldrei gert „trikkin“ sjálfur. Ég trúi bara ekkert á þetta og þess vegna er ég bara með vin minn sem þjálfara og hann er bara þarna í einhverjum Matrix-leðurslopp og við fíflumst bara í öllum öðrum.“

Hann segir snjóbretti ekki vera neina þjálfaraíþrótt. Maður eigi bara að gera það sem maður vilji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×