Sport

Íris Eva setti nýtt Íslandsmet með loftriffli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íris Eva Einarsdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur.
Íris Eva Einarsdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur. Mynd/Skotíþróttasamband Íslands
Íris Eva Einarsdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur bætti í dag eigið Íslandsmet með loftriffli á landsmóti með enskan riffil í Digranesi en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skotíþróttasambandi Íslands.

Íris Eva Einarsdóttir fékk 403,6 stig fyrir skotröð sína en í öðru sæti varð Jórunn Harðardóttir með 393,3 stig.

Í keppni með loftriffil karla vann Guðmundur Helgi Christensen úr SR með 593,2 stig  en Þorsteinn B. Bjarnarson úr SR varð annar með 497,6 stig.

Í keppni með loftskammbyssu karla þá vann Thomas Viderö úr SFK með 559 stig, Guðmundur Kr. Gíslason úr Skotfélagi Reykjavíkur varð annar með 542 stig og Stefán Sigurðsson úr SFK þriðji með 538 stig.

Í kvennaflokki í keppni með loftskammbyssu vann Kristína Sigurðardóttir úr SR með 360 stig (+ 8 innri tíur) en Jórunn Harðardóttir úr SR varð önnur með 360 stig (+ 4 innri tíur). Jórunn varð því að sætta sig við tvö silfur í dag.

Í liðakeppninni sigraði A-sveit Skotfélags Kópavogs með 1,612 stig, A-sveit SR varð önnur með 1,603 stig og B-sveit SR þriðja með 1,544 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×