Erlent

15 látnir eftir sjálfsmorðsárás í Rússlandi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
15 eru látnir og tugir slösuðust eftir sjálfsmorðsárás á lestarstöð í Volgograd í Rússlandi í dag. Þetta er önnur sprengjuárásin í Rússlandi á þremur dögum. Rússar eru áhyggjufullir enda hefjast vetrarólympíuleikarnir í landinu eftir rúman mánuð.

Kona sprengdi sjálfa sig í loft upp við málmleitarhlið í anddyri aðalinngangs lestarstöðvarinnar skömmu fyrir klukkan eitt að staðartíma í dag. Sprengingin var öflug og greip mikil skelfing um sig meðal þeirra sem voru í lestarstöðinni. 15 létu lífið og allt að 50 slösuðust, þar af nokkrir alvarlega.

Á myndskeiði sem tekið var upp skömmu eftir sprenginguna mátti sjá sjúkraflutningamenn bera særða út úr lestarstöðinni og lík lágu við inngang stöðvarinnar. Engin hefur lýst yfir ábyrgð á sprengingunni en grunur leikur á að hún tengist vetrarólympíuleikunum sem hefjast í borginni Sochi í Rússlandi eftir rúman mánuð.

Þetta er önnur sjálfsmorðsárásin í Volgograd á skömmum tíma. Í október létustu sjö þegar sprengja sprakk í strætisvagni í borginni. Þrír létu lífið fyrir þremur dögum eftir að sprengja sprakk í bíl í borginni Pyatigorsk í suðurhluta Rússlands.

Grunur leikur á að íslamskir uppreisnarsinnar beri ábyrgð á sjálfsmorðsárásinni í dag. Leiðtogi þeirra, Doku Umarov, sagði í myndbandi sem birt var í sumar að öllum aðferðum yrði beitt til að koma í veg fyrir að Vladimir Pútin, forseti Rússland, tækist að setja vetrarólympíuleikanna.

Árásin í dag er sú mannskæðasta á rússneskri grundu frá því í janúar árið 2011 þegar 37 létu lífið eftir sprengjuárás á flugvelli í Moskvu. Pútin hefur fyrirskipað aukna öryggisgæslu eftir árásina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×