Miðjan í borginni Ólafur Þ. Stephensen skrifar 25. september 2013 06:00 Könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið á fylgi flokkanna í Reykjavíkurborg bregður athyglisverðu ljósi á stöðu borgarmálanna. Bezti flokkurinn nýtur nú aftur mests stuðnings allra framboða í Reykjavík, hefur sama fylgi og hann fékk í kosningunum 2010 og fengi aftur sex borgarfulltrúa ef gengið kosið yrði nú. Sjálfstæðisflokkurinn hefur glatað forystunni sem hann hafði í könnunum mestan part kjörtímabilsins, fengi minna fylgi en í síðustu kosningum og jafnmarga fulltrúa, eða fimm. Samfylkingin tapar fylgi og fengi tvo menn í stað þriggja, en Vinstri græn gætu unnið mann, þótt fylgið hafi minnkað. Framsóknarflokkurinn mælist með svipað fylgi og í síðustu kosningum, sem dugir ekki til að koma manni í borgarstjórn, og hefur dalað verulega síðan í könnun í apríl, þegar flokkurinn var á mikilli siglingu á landsvísu. Merkilegustu tíðindin eru að Bezti flokkurinn er ekki sú bóla sem margir spáðu. Flokkurinn varð stærstur í borgarstjórn í krafti vantrausts kjósenda á gömlu flokkunum. Það vantraust er enn til staðar og á því græðir Bezti flokkurinn, þrátt fyrir að hafa í mörgu ekki staðið sig vel við rekstur borgarinnar. Jón Gnarr borgarstjóri hefur komið á óvart. Hann lýsti því yfir í upphafi að hann ætlaði að láta öðrum eftir daglegan rekstur en rækta „óskilgreint tilfinningalegt hlutverk“ borgarstjórans gagnvart borgarbúum, vera í betra sambandi við þá og taka meiri þátt í daglegu lífi þeirra. Þetta fannst mörgum fráleitt, en staðreyndin er að það hefur gengið eftir og margir Reykvíkingar kunna vel að meta að einhver rækti tilfinningasambandið við þá; sérstaklega af því að það eru ekki margir aðrir stjórnmálamenn sem gera það. Um leið og Bezti flokkurinn festist í sessi dýpkar kreppa gömlu flokkanna. Samfylkingin er óralangt frá því fylgi sem hún telur sig eiga að njóta í borginni. Þvert á það sem spáð var í upphafi, að Samfylkingin myndi stjórna borginni í raun, hefur hún staðið í skugga Bezta flokksins í meirihlutasamstarfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir græða augljóslega ekki á stjórnarsetunni og það mun ekki breytast fram að borgarstjórnarkosningum, á tíma þar sem ríkisstjórnin mun taka margar óvinsælar ákvarðanir. Þeir líða líka báðir fyrir forystuleysi; Framsóknarflokkurinn á engan leiðtoga í borginni og Sjálfstæðisflokkurinn í raun ekki heldur eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir fór í landsmálin. Eftir að R-listinn leystist upp endurheimti Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sína sem stærsti flokkurinn í borgarstjórn þótt sú tíð sé liðin þegar hann náði hreinum meirihluta. Í síðustu kosningum varð hann hins vegar næststærstur og gæti orðið það aftur. Átök innan flokksins um aðferðir við val á framboðslista í borginni eru til marks um ákveðna örvæntingu yfir þessari stöðu; margir í harða kjarna flokksins telja greinilega að sumir af borgarfulltrúunum hafi gert of mikið af því að vinna með meirihlutanum, ekki sízt í skipulagsmálum, og vilja breytta stefnu með harðari einkabílisma og andstöðu við að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Afstaða til Reykjavíkurflugvallar virðist reyndar litlu breyta um það hvaða flokka fólk styður í borgarstjórn. Og er vit í því fyrir sjálfstæðismenn í borginni að taka hægribeygju og halla sér að stefnu íhaldssamrar ríkisstjórnar sem tapar vinsældum sínum hratt? Eða eiga þeir að sækja inn á miðjuna í borgarmálunum eins og flokkurinn gerði lengst af með góðum árangri? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið á fylgi flokkanna í Reykjavíkurborg bregður athyglisverðu ljósi á stöðu borgarmálanna. Bezti flokkurinn nýtur nú aftur mests stuðnings allra framboða í Reykjavík, hefur sama fylgi og hann fékk í kosningunum 2010 og fengi aftur sex borgarfulltrúa ef gengið kosið yrði nú. Sjálfstæðisflokkurinn hefur glatað forystunni sem hann hafði í könnunum mestan part kjörtímabilsins, fengi minna fylgi en í síðustu kosningum og jafnmarga fulltrúa, eða fimm. Samfylkingin tapar fylgi og fengi tvo menn í stað þriggja, en Vinstri græn gætu unnið mann, þótt fylgið hafi minnkað. Framsóknarflokkurinn mælist með svipað fylgi og í síðustu kosningum, sem dugir ekki til að koma manni í borgarstjórn, og hefur dalað verulega síðan í könnun í apríl, þegar flokkurinn var á mikilli siglingu á landsvísu. Merkilegustu tíðindin eru að Bezti flokkurinn er ekki sú bóla sem margir spáðu. Flokkurinn varð stærstur í borgarstjórn í krafti vantrausts kjósenda á gömlu flokkunum. Það vantraust er enn til staðar og á því græðir Bezti flokkurinn, þrátt fyrir að hafa í mörgu ekki staðið sig vel við rekstur borgarinnar. Jón Gnarr borgarstjóri hefur komið á óvart. Hann lýsti því yfir í upphafi að hann ætlaði að láta öðrum eftir daglegan rekstur en rækta „óskilgreint tilfinningalegt hlutverk“ borgarstjórans gagnvart borgarbúum, vera í betra sambandi við þá og taka meiri þátt í daglegu lífi þeirra. Þetta fannst mörgum fráleitt, en staðreyndin er að það hefur gengið eftir og margir Reykvíkingar kunna vel að meta að einhver rækti tilfinningasambandið við þá; sérstaklega af því að það eru ekki margir aðrir stjórnmálamenn sem gera það. Um leið og Bezti flokkurinn festist í sessi dýpkar kreppa gömlu flokkanna. Samfylkingin er óralangt frá því fylgi sem hún telur sig eiga að njóta í borginni. Þvert á það sem spáð var í upphafi, að Samfylkingin myndi stjórna borginni í raun, hefur hún staðið í skugga Bezta flokksins í meirihlutasamstarfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir græða augljóslega ekki á stjórnarsetunni og það mun ekki breytast fram að borgarstjórnarkosningum, á tíma þar sem ríkisstjórnin mun taka margar óvinsælar ákvarðanir. Þeir líða líka báðir fyrir forystuleysi; Framsóknarflokkurinn á engan leiðtoga í borginni og Sjálfstæðisflokkurinn í raun ekki heldur eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir fór í landsmálin. Eftir að R-listinn leystist upp endurheimti Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sína sem stærsti flokkurinn í borgarstjórn þótt sú tíð sé liðin þegar hann náði hreinum meirihluta. Í síðustu kosningum varð hann hins vegar næststærstur og gæti orðið það aftur. Átök innan flokksins um aðferðir við val á framboðslista í borginni eru til marks um ákveðna örvæntingu yfir þessari stöðu; margir í harða kjarna flokksins telja greinilega að sumir af borgarfulltrúunum hafi gert of mikið af því að vinna með meirihlutanum, ekki sízt í skipulagsmálum, og vilja breytta stefnu með harðari einkabílisma og andstöðu við að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Afstaða til Reykjavíkurflugvallar virðist reyndar litlu breyta um það hvaða flokka fólk styður í borgarstjórn. Og er vit í því fyrir sjálfstæðismenn í borginni að taka hægribeygju og halla sér að stefnu íhaldssamrar ríkisstjórnar sem tapar vinsældum sínum hratt? Eða eiga þeir að sækja inn á miðjuna í borgarmálunum eins og flokkurinn gerði lengst af með góðum árangri?