"Að reynast einhverjum eitthvað“ Jón Yngvi Jóhannsson skrifar 5. október 2013 12:00 Skessukatlar BÆKUR Skessukatlar Þorsteinn frá Hamri Mál og menning Í ár eru liðin 55 ár síðan fyrsta ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Í svörtum kufli, kom út – ljóðabækurnar eru komnar vel á þriðja tuginn síðan. Nýjasta bók Þorsteins, Skessukatlar, ber þess að sumu leyti merki að hér talar skáld með reynslu. Hér eru ljúfsár en þó beitt kvæði um æskuna og nokkrum sinnum vitnar Þorsteinn til eldri ljóða sinna, t.d. í áhrifamiklu ljóði um náttúru og skáldskap sem nefnist „Lífæðar“ þar sem vísun í ljóðið „Ísland“ úr Fiðrinu úr sæng Daladrottningar (1977) dýpkar ljóðið og gerir það persónulegra: „Myndum við hafa árætt/að leggja að líku/eigin blóðrás/og blátær vatnsföll,/æðar landsins,/læki og fljót,/vitandi/að innan skamms yrðu þau/án blygðunar/myrkvuð, deydd, af mönnum?“ Hér eru líka ljóð þar sem samtíminn er tekinn til bæna, hávaðalaust en ákveðið eins og í „Heimsundrum“ þar sem lýst er heimi þar sem „Dagleg nálgun/við dýrð glæpsins“ er „opin og öllum til boða“. Í sama ljóði er sneitt að lífi okkar flestra í samtímanum þar sem allir eru „á njósn hjá öllum, fjær eða nær!“. Niðurstaða þess ljóðs er klassísk en einföld, „að hollt gæti reynzt að vera einhverjum eitthvað“. Bókin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum og þeim þriðja eru áberandi ljóð þar sem fléttast saman stef sem eru gamalkunn úr ljóðum Þorsteins, náttúra, skáldskapur, tengsl fortíðar og nútíðar. Í stuttum og snörpum miðkafla bókarinnar skiptir svo hressilega bæði um tón og takt. Skáldið er glaðbeittara og herskárra en í öðrum köflum bókarinnar. Þetta millispil byrjar á ljóði sem nefnist „Stef úr plágunni“ og ber þess alls engin merki að vera ort af 75 ára gömlum manni, það er kraftur í því, taktur og leikur, næstum ungæðisháttur. Form ljóðanna er fágað og fjölbreytt eins og vænta má. Þriðji hlutinn hefst á óbundnu prósaljóði sem nefnist „Áning“ en flest ljóðanna eru þó bundin stuðlum og reglulegri hrynjandi, hefðbundnast er ljóðið „Af jörðu“ sem reynist vera fullkomlega reglulegt og rímað þegar leyst hefur verið upp úr mislöngum línum. Þetta stílbragð, að yrkja bundið en láta uppsetningu ljóðsins á prentfletinum líkjast fríljóði, hefur skáldið notað áður. Það er löngu orðin klisja að kalla Þorstein brúarsmið milli hefðar og nútíma, en það á einstaklega vel við þessa bók, bæði form og yrkisefni. Skessukatlar er sennilega með aðgengilegri bókum Þorsteins frá Hamri. Það eru í henni fjölmörg ljóð sem eru grípandi við fyrsta lestur, önnur vinna á, enn önnur á maður til góða. Hér er allt sem prýðir góða ljóðabók frá hendi Þorsteins en hann er ekki hættur að koma lesendum sínum á óvart. Í ljóðinu „Himintungl“ er spurt „hvort maður geti í fullri samvizkusátt/leyft sér að kenna ljósblik augna við stjörnur“. Gagnrýnandi sem hefur lifað með jafn góðri ljóðabók og Skessukötlum í nokkra daga og ljóðum skáldsins mestöll fullorðinsár sín getur auðvitað spurt sjálfan sig hvort hann geti leyft sér að gefa Þorsteini frá Hamri stjörnur; þær verða þá að minnsta kosti að vera fimm.Niðurstaða: Heilsteypt og fjölbreytt ljóðabók eftir eitt af okkar allra bestu skáldum. Gagnrýni Mest lesið Æskudraumurinn varð að veruleika Lífið Stjörnulífið: Svona voru jólin hjá stjörnum landsins Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Eftirréttur ársins að hætti Elenoru Lífið Sonur Völu og Óskars Loga kominn með nafn Lífið Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér útkomuna en passa sig á nokkrum gryfjum Áskorun Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólaboð Evu: Kalkúnabringur með öllu tilheyrandi Matur Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
BÆKUR Skessukatlar Þorsteinn frá Hamri Mál og menning Í ár eru liðin 55 ár síðan fyrsta ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Í svörtum kufli, kom út – ljóðabækurnar eru komnar vel á þriðja tuginn síðan. Nýjasta bók Þorsteins, Skessukatlar, ber þess að sumu leyti merki að hér talar skáld með reynslu. Hér eru ljúfsár en þó beitt kvæði um æskuna og nokkrum sinnum vitnar Þorsteinn til eldri ljóða sinna, t.d. í áhrifamiklu ljóði um náttúru og skáldskap sem nefnist „Lífæðar“ þar sem vísun í ljóðið „Ísland“ úr Fiðrinu úr sæng Daladrottningar (1977) dýpkar ljóðið og gerir það persónulegra: „Myndum við hafa árætt/að leggja að líku/eigin blóðrás/og blátær vatnsföll,/æðar landsins,/læki og fljót,/vitandi/að innan skamms yrðu þau/án blygðunar/myrkvuð, deydd, af mönnum?“ Hér eru líka ljóð þar sem samtíminn er tekinn til bæna, hávaðalaust en ákveðið eins og í „Heimsundrum“ þar sem lýst er heimi þar sem „Dagleg nálgun/við dýrð glæpsins“ er „opin og öllum til boða“. Í sama ljóði er sneitt að lífi okkar flestra í samtímanum þar sem allir eru „á njósn hjá öllum, fjær eða nær!“. Niðurstaða þess ljóðs er klassísk en einföld, „að hollt gæti reynzt að vera einhverjum eitthvað“. Bókin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum og þeim þriðja eru áberandi ljóð þar sem fléttast saman stef sem eru gamalkunn úr ljóðum Þorsteins, náttúra, skáldskapur, tengsl fortíðar og nútíðar. Í stuttum og snörpum miðkafla bókarinnar skiptir svo hressilega bæði um tón og takt. Skáldið er glaðbeittara og herskárra en í öðrum köflum bókarinnar. Þetta millispil byrjar á ljóði sem nefnist „Stef úr plágunni“ og ber þess alls engin merki að vera ort af 75 ára gömlum manni, það er kraftur í því, taktur og leikur, næstum ungæðisháttur. Form ljóðanna er fágað og fjölbreytt eins og vænta má. Þriðji hlutinn hefst á óbundnu prósaljóði sem nefnist „Áning“ en flest ljóðanna eru þó bundin stuðlum og reglulegri hrynjandi, hefðbundnast er ljóðið „Af jörðu“ sem reynist vera fullkomlega reglulegt og rímað þegar leyst hefur verið upp úr mislöngum línum. Þetta stílbragð, að yrkja bundið en láta uppsetningu ljóðsins á prentfletinum líkjast fríljóði, hefur skáldið notað áður. Það er löngu orðin klisja að kalla Þorstein brúarsmið milli hefðar og nútíma, en það á einstaklega vel við þessa bók, bæði form og yrkisefni. Skessukatlar er sennilega með aðgengilegri bókum Þorsteins frá Hamri. Það eru í henni fjölmörg ljóð sem eru grípandi við fyrsta lestur, önnur vinna á, enn önnur á maður til góða. Hér er allt sem prýðir góða ljóðabók frá hendi Þorsteins en hann er ekki hættur að koma lesendum sínum á óvart. Í ljóðinu „Himintungl“ er spurt „hvort maður geti í fullri samvizkusátt/leyft sér að kenna ljósblik augna við stjörnur“. Gagnrýnandi sem hefur lifað með jafn góðri ljóðabók og Skessukötlum í nokkra daga og ljóðum skáldsins mestöll fullorðinsár sín getur auðvitað spurt sjálfan sig hvort hann geti leyft sér að gefa Þorsteini frá Hamri stjörnur; þær verða þá að minnsta kosti að vera fimm.Niðurstaða: Heilsteypt og fjölbreytt ljóðabók eftir eitt af okkar allra bestu skáldum.
Gagnrýni Mest lesið Æskudraumurinn varð að veruleika Lífið Stjörnulífið: Svona voru jólin hjá stjörnum landsins Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Eftirréttur ársins að hætti Elenoru Lífið Sonur Völu og Óskars Loga kominn með nafn Lífið Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér útkomuna en passa sig á nokkrum gryfjum Áskorun Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólaboð Evu: Kalkúnabringur með öllu tilheyrandi Matur Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira