Sport

Nóg að gera hjá nýkrýndum Íslandsmeisturum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurvegarar. Vala Rún og Kristín Valdís með sigurlaunin sín um helgina.
Sigurvegarar. Vala Rún og Kristín Valdís með sigurlaunin sín um helgina. mynd/aðsend
Um helgina fór fram Íslandsmótið í listhlaupi á skautum í Egilshöll en alls tók 61 keppandi þátt. Vala Rún B. Magnúsdóttir, sautján ára, varð Íslandsmeistari í unglingaflokki en það er elsti flokkurinn sem keppt var í. Hin fimmtán ára Kristín Valdís Örnólfsdóttir vann í stúlknaflokki en báðar keppa þær fyrir SR.

„Þrátt fyrir ungan aldur eru þær báðar reynsluboltar sem hafa æft mikið og lengi,“ sagði Bjarnveig Guðjónsdóttir hjá Skautasambandi Íslands.

Keppnistímabilið er í fullum gangi og nær hápunkti í febrúar þegar Norðurlandamótið fer fram í Svíþjóð. Fyrir það keppir landsliðið einnig á sterku móti í Slóvakíu auk þess sem okkar besta fólk keppir á Reykjavíkurleikunum í janúar.

„Það eru því strangar æfingar fram undan og okkar besta fólk er til að mynda að fara í æfingabúðir um jólin,“ segir Bjarnveig. Sem stendur hafa sex náð lágmarksviðmiði fyrir landsliðshópinn – tvær í unglingaflokki og fjórar í stúlknaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×