Íslenski boltinn

Kostar mest að æfa hjá ÍA, minnst hjá KA

Stefán Árni Pálsson skrifar
Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 4. og 6. flokk.
Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 4. og 6. flokk. visir/pjetur
Verðlagseftirlit ASÍ tók saman æfingagjöld í knattspyrnu hjá 16 íþróttafélögum víðsvegar um landið en skoðuð var gjaldskrá hjá 4. og 6. flokki íþróttafélaganna.

Til að verðlagseftirlitið gæti borið gjaldskrá félaganna saman var fundið út mánaðargjald fyrir vorönn, þar sem félögin hafa ekki samræmda uppsetningu á gjaldskrá fyrir eitt ár í senn.

Þetta kemur fram í frétt á vef ASÍ.

4. flokkur

Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 4. flokk eða 12 og 13 ára börn. Dýrast er að æfa hjá ÍA en þar kostar mánuðurinn 7.333 kr. eða 36.667 kr. fyrir 5 mánuði á vorönn. Ódýrast er að æfa hjá KA en þar kostar mánuðurinn 4.667 kr. eða 23.333 kr. vorönnin. Verðmunurinn er 57% eða 13.333 kr.

6. flokkur

Verðlagseftirlitið bar einnig saman gjaldskrá fyrir 6. flokk eða 8 og 9 ára börn. Dýrast er að æfa hjá ÍA en þar kostar mánuðurinn 6.667 kr. eða 33.333 kr. fyrir 5 mánuði á vorönn. Ódýrast er að æfa hjá KA en þar kostar mánuðurinn 3.778 kr. eða 18.889 kr. vorönnin. Verðmunurinn er 76% eða 14.444 kr.

Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjálfun sem er í boði á æfingum íþróttafélaganna er ekki metin.  Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til fjáröflunar sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×