Sport

Thorpe kominn í meðferð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Lögreglan í Sydney var kölluð til vegna óeðlilegrar hegðunar ástralska sundkappans Ian Thorpe á dögunum.

Thorpe greindi frá því í sjálfsævisögu sinni á síðasta ári að hann hefði glímt við afar erfitt þunglyndi.

Hann þótti sýna undarlega hegðun í kringum bíl í Sydney og ákvað eigandi bifreiðarinnar að hringja á lögregluna.

„Þá gerðu þau sér grein fyrir að þetta var Ian Thorpe. Þau sáu að hann var mjög ringlaður,“ sagði James Erskine, umboðsmaður Thorpe, við ástralska fjölmiðla.

Erskine neitaði því að Thorpe hafi verið undir áhrifum áfengis. Hann væri hins vegar á þunglyndislyfjum og verkjalyfjum vegna axlarmeiðsla. „Hann er í meðferð vegna þunglyndis,“ staðfesti Erskine.

Fyrir nokkrum dögum síðan var því haldið fram í fjölmiðlum ytra að Thorpe væri í áfengis- og þunglyndismeðferð en umboðsskrifstofa hans neitaði því.

Thorpe vann fimm gullverðlaun á Ólympíuleikum á sínum tíma, þar af þrenn á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Hann vann einnig ellefu heimsmeistaratitla á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×