Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að Evrópumálin verði sett í sáttarfarveg.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá flokknum að með tillögunni er í fyrsta lagi lagt til að gert verði formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og ríkisstjórninni falið að gera Evrópusambandinu grein fyrir þeirri afstöðu.
Í öðru lagi er lagt til að aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram eða þær teknar upp á nýjan leik, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að efnt verði til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.
Tillagan er hugsuð sem framlag til að finna málinu ábyrgan og ásættanlegan farveg fyrir sem allra flesta, án tillits til efnislegrar afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu.
Hún tryggir meðal annars að aðildarviðræður verða ekki viðfangsefni núverandi ríkisstjórnar en jafnframt að forystumenn hennar geti efnt loforð sín um aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun um framhald málsins.
Með því að stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu alþingiskosningar getur þjóðin veitt leiðsögn sína og stjórnmálahreyfingarnar tekið mið af henni við myndun næstu ríkisstjórnar.
Þá er tillagan einnig til þess fallin að skapa festu og traust í samband Íslands við Evrópusambandið sem er einn mikilvægasti samstarfsaðili Íslands á alþjóðavettvangi.
Innlent