Fótbolti

Dóra María: Ísland mun aldrei geta neitt án liðsheildar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir bar fyrirliðabandið í sínum hundraðasta A-landsleik þegar íslenska kvennalandsliðið vann 2-1 sigur á Svíþjóð í dag í leiknum um þriðja sætið í Algarve-bikarnum í fótbolta.

Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmaður KSÍ er úti með liðinu á vegum sambandsins og hann tók viðtal við Dóru Maríu eftir leikinn.

„Þetta var frábært. Við lögðum upp með að halda áfram að bæta okkar leik. Það hefur verið mikill stígandi í þessu eftir erfiðan fyrsta leik á móti Þýskalandi. Það var mjög ljúf að ná að vinna þetta," sagði Dóra María.

„Þjálfarateymið lagði upp með að stækka hópinn og það hefur tekist mjög vel. Margar nýjar voru að fá reynslu á þessu móti og það mun hjálpa okkur í framhaldinu," sagði Dóra María.

„Þessar nýju eru að koma ótrúlega vel inn í þetta hjá okkur og maður sér ekkert að þær séu eitthvað reynsluminni en við hinar. Þær eru ótrúlega öflugar og það er gaman að fylgjast með þeim," sagði Dóra María um nýju leikmenn liðsins á Algarve-mótinu í ár.

„Svíar eru með öflugt lið en við vorum ekkert að spá mikið í þeim heldur ætluðum bara að halda áfram að hugsa um okkur að reyna að halda okkar skipulagi. Það kom ekkert á óvart í þessum leik," sagði Dóra María.

„Liðsheildin skilaði þessum sigri. Ísland mun aldrei geta neitt án liðsheildar og það var hún sem skóp sigurinn í dag," sagði Dóra María en það má sjá allt viðtalið hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Héldu "kúlinu“ eftir stóra tapið á móti Þýskalandi

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur gefið 21 leikmanni tækifæri í byrjunarliðinu á Algarve-mótinu en um leið hefur liðið náð öðrum besta árangri sínum á mótinu frá upphafi. Liðið spilar um bronsið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×