Íslenski boltinn

Reglunum verður ekki breytt fyrir KV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Daníel
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, ræddi málefni KV í kvöldfréttum Stöðvar tvö en enn er mikil óvissa um hvort Knattspyrnufélag Vesturbæjar fái hreinlega þátttökuleyfi í 1. deild karla í fótbolta í sumar.

Þórir segir að Knattspyrnufélag Vesturbæjar verði að fara að lögum eins og önnur knattspyrnufélög landsins og framkvæmdastjóri KSÍ er harður á því að regluverkinu verði ekki breytt vegna stöðu KV.

Páll Kristjánsson, formaður KV, var harðorður í garð Knattspyrnusambands Íslands í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi vegna undanþágu KV vegna þátttöku liðsins í 1. deildinni í sumar. Hann lýsir glímunni við KSÍ sem tilgangslausri vinnu og líkti sambandinu við gömlu Sovétríkin.

„Félögin hafa viljað það hingað til að hafa stífar reglur um ákveðin atriði í leyfiskerfinu. Ef honum finnst það of mikið þá er það hans mál og hans skoðun á málinu. Ég er ekki sammála honum í því og félögin á Íslandi virðast ekki vera sammála honum heldur," sagði Þórir Hákonarson í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Félögin á Íslandi vildu undirganga þetta kerfi til að þróa knattspyrnuna á Íslandi. Ef hann ef einhverja aðra skoðun á því þá er það hans mál. Ég held að það sé engar áætlanir í gangi um að gera einhverjar breytingar á Leyfiskerfinu," sagði Þórir.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ.Mynd/Pjetur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×